Talið er að eldurinn sem varð á fjórðu hæð fjölbýlishúss í Grafarvogi aðfaranótt þriðjudags hafi kviknað í stofu.
Að sögn Ásgeirs Péturs Guðmundssonar lögreglufulltrúa er erfiðara að segja til um hvar eldurinn kviknaði í einbýlishúsinu í Mosfellsbæ skömmu síðar, enda hrundi húsið til grunna.
Lögreglan bíður eftir niðurstöðu tæknideildar varðandi eldsupptök og telur Ásgeir Pétur að hennar sé að vænta öðrum hvorum megin við helgina.
Hann tekur fram að ekki leikur grunur á því að eldsvoðarnir tveir hafi orðið með saknæmum hætti.
Búið er að ræða við íbúa í tengslum við rannsóknirnar tvær en enn á eftir að tala við einhverja.