Meira en tífalda má raforkuöryggi á Vestfjörðum með því að setja hluta Vesturlínu og fleiri línur á sunnanverðum Vestfjörðum í jörð. Hins vegar gerir virkjun Hvalár ekkert til að bæta raforkuöryggið þar. Þetta er meðal niðurstaðna ráðgjafarfyrirtækis á sviði raforkumála sem Landvernd fékk til þess að leita leiða til þess að styrkja raforkuflutningskerfið á Vestfjörðum og bæta raforkuöryggi. Framkvæmdastjóri og starfandi formaður Landverndar afhentu í dag Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fyrsta eintak skýrslunnar.
Mikil umræða hefur orðið síðustu misseri um raforkuöryggi á Vestfjörðum, sérstaklega í kjölfar þess að áform um Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði komust í hámæli. Lengi hefur þó verið ljóst að afhendingaröryggi raforku er verulega ábótavant á svæðinu. Bilanir eru tíðar í einu flutningsleiðinni inn á svæðið, Vesturlínu, sem og á suðurfjörðunum.
Stjórn Landverndar óskaði í október eftir úttekt á möguleikum á að bæta úr ástandinu hjá kanadísku ráðgjafarfyrirtæki á sviði raforkuflutnings, METSCO Energy Solutions. Úttektin liggur nú fyrir og eru niðurstöður hennar að með því að leggja samtals fimm 66 og 132 kílóvolta línur í jörð megi bæta raforkuöryggi Vestfirðinga meira en tífalt.
Vesturlína, sem svo er kölluð, samanstendur af Geiradalslínu 1, Mjólkárlínu 1 og Glerárskógarlínu 1 og liggur frá Hrútafirði til Mjólkárvirkjunar. Línan er rekin á 132 kílóvolta spennu. Um hana fer allur raforkuflutningur til Vestfjarða. Truflanir á línunni hafa verið þó nokkrar á undanförnum árum. Minni línur liggja á firðina, það er 66 og 33 kílóvolta línur og iðulega hafa verið truflanir vegna þeirra líka. Tálknafjarðarlína og Breiðadalslína eru 66 kílovolta loftlínur og frá Breiðadal er 66 kílóvolta lína til Bolungarvíkur og Ísafjarðar og síðan 66 kílóvolta jarðstrengur milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Þrjár 33 kílóvolta loftlínur tengja síðan Mjólká við Breiðadal með tengingu til Hrafnseyrar og Þingeyrar. Sömuleiðis eru 33 kílovolta línur frá Geiradal til Hólmavíkur og frá Keldeyri til Bíldudals.
Í frétt frá Landvernd um skýrsluna er bent á að því hafi verið haldið fram í umræðu um 55 MW Hvalárvirkjun að hún myndi bæta raforkuöryggi svæðisins. Á Ströndum liggur annað kerfi raforkudreifingar og er raforkuöryggi þar ekki talið vandamál. Ekki hefur verið vísað til þess í umræðu um virkjun Hvalár.
„Skýrsla kanadíska ráðgjafarfyrirtækisins tekur af öll tvímæli um það að virkjun Hvalár og sú tenging hennar við flutningskerfi sem hefur verið í umræðunni, styrkir sem slík ekki raforkuöryggi Vestfirðinga,“ segir í frétt Landverndar. Auknu raforkuöryggi megi hins vegar koma á með því að leggja áðurnefndar loftlínur í jörð. Myndi raforkuöryggi Vestfirðinga aukast meira en tífalt og fram kemur í skýrslunni að framkvæmdatími slíkra jarðstrengja sé almennt ekki meira en 1-2 ár og heildartími með leyfisveitingum 2-3 ár. Fjárfesting í jarðstrengjum skilar sér mun fyrr en þegar um loftlínur er að ræða, sem tekur oft 8-10 ár að leggja, með leyfisveitingaferli.
Tillaga skýrsluhöfunda er að endurnýja Mjólkárlínu (MJ1) með jarðstreng og sömuleiðis fjórar 66 kílóvolta línur; Tálknafjarðarlínu 1 (TA1), Bolungarvíkurlínu 1 (BV1), Breiðadalslínu 1 (BD1) og Ísafjarðarlínu 1 (IF1). Um væri að ræða samtals um 194 km leið. Við þetta er raforkuöryggi talið batna tífalt. „Benda má á að svokölluð hringtenging raforku um Vestfirði, sem mikið er nefnd í tengslum við Hvalárvirkjun, mundi kalla á sambærilega styrkingu þess hluta raforkukerfisins sem hér ræðir, auk kostnaðarsamrar og erfiðrar tengingar virkjunarinnar við Ísafjörð og nærsveitir,“ segir í frétt Landverndar. Þá séu jákvæð áhrif jarðstrengja miðað við loftlínur á landslag og ásýnd byggða ótvíræð.
Í frétt Landverndar segir að samtökin vilji stuðla að málefnalegri umræðu um nýtingu íslenskrar náttúru til öflunar raforku og um raforkuflutning. Skýrslan er 21 síða að lengd og er gefin út á ensku. Vonast samtökin til þess að skýrslan geti styrkt grundvöll fyrir upplýstri umræðu og bætt ákvörðunartöku stjórnvalda bæði á landsvísu og í heimabyggð um þessi vandmeðförnu mál.