„Allt er vont — Mér blæðir“

Í níu af 62 frásögnum kvenna í íþróttum er að …
Í níu af 62 frásögnum kvenna í íþróttum er að finna lýsingu á því hvernig konunum var nauðgað í tengslum við íþróttaiðkun sína. AFP

„Ég er að drepast úr verkjum. Það er vont að sitja, það er vont að standa. Allt er vont. Mér blæðir.“ Svona lýsir kvenkyns leikmaður líðan sinni eftir að karlkyns þjálfari hennar nauðgaði henni í íþróttahúsi, að morgni leikdags. „Hann nauðgar mér. Ekki í fyrsta skipti og ekki í síðasta skipti.“

Frásögnin er ein af þeim 62 sem konur í íþróttum birtu í dag. Ásamt frásögnum af kyn­bund­inni mis­mun­un, kyn­ferðis­legri áreitni og kyn­ferðis­legu of­beldi birtu þær yfirlýsingu með undirskriftum 462 kvenna þar sem þess er kraf­ist að tekið sé föst­um tök­um á kyn­bundnu of­beldi og mis­rétti inn­an íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar.

Frétt mbl.is: Konur krefjast breytinga í íþróttum

Níu nauðganir er að finna í frásögnunum. Í þeirri sem lýst er hér að framan kemur meðal annars fram hvernig konan gerir allt sem hún getur til að fela það sem gerst hafði fyrir liðsfélögum sínum. „Stelpurnar eru mættar inn í klefa og ég heyri í þeim spila tónlist og hlæja og peppa sig fyrir leikinn og fundinn.“

Þá lýsir hún því að hún sé reið við sjálfa sig vegna nauðgunarinnar. „Ég er reið við sjálfa mig fyrir það að blæða því ég reyndi eins og ég gat að slaka á og berjast ekkert á móti þegar hann var að þessu. Ég reyndi bara að bíða eftir því að þetta tæki enda. Ég æli í klósettið og skelf öll. Mér er rosalega kalt. Ég þarf að skipta yfir í keppnisbúninginn en allt liðið mitt er inni í klefa og ég er með blóð á lærunum og stuttbuxunum.“

Hún lýsir því hvernig hún setur hettupeysu um mittið á sér og laumar sér inn á klósett þar sem hún þrífur blóðið og klæðir sig í keppnisfötin. „Ég er svo fokking óþolandi. Á ég að taka sénsinn á því að það muni hætta að blæða og að það muni ekki blæða í gegnum stuttbuxurnar mínar í leiknum? Hvað ef það hættir ekki að blæða? Hvað ef þetta verður langur leikur? Ég get ekki verið öll í blóði. En ég get ekki sett túrtappa í mig, ég er að drepast. Mig langar ekki að fá neitt annað þangað inn heldur. Ég æli aftur,“ segir í frásögninni.

Þegar liðsfélagar hennar yfirgefa klefann til að mæta á liðsfund hleypur konan inn í klefann, setur í sig túrtappa þrátt fyrir verkina og fer á fundinn. „Ég var svo skömmuð af þjálfaranum fyrir að koma einni mínútu of seint á fundinn.“

Sektarsjóðir, klám og „ríðulegar stuttbuxur“

Frásagnirnar eru af ýmsum toga og koma gerendurnir úr ólíkum áttum. Meðal annars má finna frásagnir þar sem þjálfarar, leikmenn, landsliðsmenn, starfsmenn íþróttafélaga, stjórnarmenn íþróttafélaga eða áhangendur íþróttaliða brjóta gegn konum í íþróttum.  

Frásagnirnar eru ýmist stuttar eða langar, en allar eru þær grafalvarlegar. Í einni er minnst á svokallaðan sektarsjóð karlaliðs í hópíþrótt. „Fullt af hlutum sem gefa sekt… dregið af sektinni fyrir að sofa hjá leikmanni kvennaliðsins!“

Í annarri frásögn segir kona frá greiða sem leikmaður úr karlaliði íþróttarinnar sem þau stunda bað hana um að gera sér. „Þá bað hann mig um að næst þegar ég færi í sturtu með liðinu, að skoða eina stelpuna í liðinu nakta og segja honum svo hvernig hún rakaði sig. Hann útskýrði fyrir mér að hann þyrfti að vita hvernig klám hann ætti að horfa á þegar hann hugsaði um hana.“

Klæðnaður einnar íþróttakonunnar varð til þess að karlmaður sem stundar sömu íþrótt gerði búninginn að umtalsefni þeirra á milli. „Búningurinn í minni íþrótt er íþróttatoppur og þröngar stuttar stuttbuxur. Þegar ég var að keppa til þess að komast á Ólympíuleikana í Ríó fékk ég reglulega að heyra það frá strákum í sömu íþrótt að allar konur í íþróttum ættu að spila í svona búningum. Það væri nefnilega miklu skemmtilegra að horfa á kvennaíþróttirnar þegar stelpurnar væru svona fáklæddar. Síðan fékk ég líka margoft athugasemdir frá strákunum um útlitið mitt, t.d. „þú ert ekki með neina tussubumbu“ og „þessar stuttbuxur gera þig svo ríðulega“,“ segir í frásögninni.

KSÍ, HSÍ og ÍSÍ bregðast við 

Nokkur sérsambönd innan íþróttahreyfingarinnar hafa brugðist við yfirlýsingu og frásögnum kvennanna eftir að þær voru birtar í dag. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði í samtali við mbl.is að sambandið verði að taka málið alvarlega og gera allt sem í þess valdi standi til að koma í veg fyrir áreitni eða ofbeldi í framtíðinni. „Það verður okk­ar afstaða,“ sagði Guðni. Von er á formlegri yfirlýsingu frá KSÍ á næstu dögum.

Frétt mbl.is: Knattspyrnuhreyfingin mun bregðast við

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hlut­verk HSÍ í þessu sam­hengi sé fyrst og fremst að skapa umræðu um kyn­bundið of­beldi og mis­rétti inn­an hand­knatt­leiks­hreyf­ing­ar­inn­ar. „Og hvernig eigi að nálg­ast þetta og hvernig þjálf­ar­ar eiga að nálg­ast hlut­ina.“

Frétt mbl.is: Fræðslustarf innan HSÍ tekið til skoðunar

Þá sagði Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, í kvöldfréttum RÚV, að frásagnir kvenna í íþróttum væri eitthvað sem sambandið þyrfti að skoða. „Það er ekki hægt að verja þetta með neinum hætti.“

Allar frásagnirnar 62 má lesa hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert