Verið er að flytja fólk á slysadeild Landspítalans eftir árekstur tveggja fólksbíla á móts við Bitru í Flóahreppi í Árnessýslu.
Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi virðist sem um framanákeyrslu hafi verið að ræða og var slysið alvarlegt.
Fólk úr báðum bílum slasaðist í árekstrinum.
Allt tiltækt lið lögreglu og slökkviliðs er á staðnum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var ekki kölluð til vegna slyssins.
Suðurlandsvegur er lokaður um óákveðinn tíma vegna slyssins. Að sögn lögreglunnar er hugsanlega hægt að aka um sveitavegi í nágrenninu.
Tilkynning frá Vegagerðinni vegna slyssins:
Suðurlandsvegur (Hringvegur1) er lokaður um óákveðinn tíma rétt vestan við Skeiðavegamót vegna umferðarslyss. Hjáleið er um Villingaholtsveg (305) og Urriðafossveg (302).