Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands (HSÍ), er meðvitaður um hvers efnis frásagnir kvenna í íþróttum eru sem birtar voru í dag en hefur sjálfur ekki komist í að lesa þær. Umræða um yfirlýsingu kvenna í íþróttum, áður en hún var birt, hefur átt sér stað innan HSÍ að sögn Guðmundar, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig bregðast eigi við yfirlýsingunni og frásögnunum.
„Við þurfum að ræða allar framkvæmdir hjá okkur og fara yfir ferlana hjá félögunum um að hlutirnir séu í lagi,“ segir Guðmundur í sambandi við mbl.is.
Að minnsta kosti níu af frásögnunum 62 tengjast handbolta. Þar á meðal er frásögn 18 ára handboltakonu sem var nauðgað af handboltamanni árið 2016. „Þessi einstaklingur er og hefur verið í yngri landsliðum upp sinn feril og núna er hann í afrekshópi A-landsliðsins (sem hann var líka þegar þetta gerðist),“ segir í frásögn konunnar sem hefur einnig verið í yngri landsliðum.
Guðmundur hefur ekki heyrt af þessu tiltekna tilviki áður en segir að sambandið muni kynna sér það nánar. „Við munum að sjálfsögðu fara yfir það en það er samt svolítið erfitt að taka út svona eitt ef þetta er ekki tilgreint tilvik. Þetta er bara almennt séð og slæmt af því að það liggja þá náttúrulega allir undir grun. Við förum ekki beint í að rannsaka svona mál en ef viðkomandi þarfnast aðstoðar þá erum við boðin og búin að koma inn í það.“
Hann segir hlutverk HSÍ í þessu samhengi sé fyrst og fremst að skapa umræðu um kynbundið ofbeldi og misrétti innan handknattleikshreyfingarinnar. „Og hvernig eigi að nálgast þetta og hvernig þjálfarar eiga að nálgast hlutina. Við þurfum líka að hafa í huga að í íþróttum er nándin mikil og það er miklu meira um snertingu og annað slíkt. En auðvitað verða menn að passa sig að það sé innan eðlilegra marka sem öll samskipti eiga sér stað, og innan marka hvers og eins,“ segir Guðmundur.
Hann hyggst nýta tímann í fyrramálið til að lesa frásagnirnar og kynna sér málin betur þegar hann flýgur til Króatíu til að fylgjast með karlalandsliðinu í handbolta sem hefur leik á Evrópumótinu í handbolta á morgun.
„Ég set mig inn í málið og tek það ábyggilega til umræðu innan okkar raða um hvernig við getum brugðist við í okkar fræðslustarfi. Síðan einstök atvik ef eitthvað slíkt er, en við förum varlega í það, það þarf að einangra tilvikin til að geta tekið á því.“