Knattspyrnuhreyfingin mun bregðast við

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að frásagnir og yfirlýsing íþróttakvenna …
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að frásagnir og yfirlýsing íþróttakvenna verði teknar alvarlega og að bregðast þurfti við sem fyrst. mbl.is/Golli

„Við verðum að taka þetta alvarlega og við munum gera það og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir svona áreitni eða ofbeldi í framtíðinni. Það verður okkar afstaða,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is.

62 frásagnir kvenna úr heimi íþróttanna af kyn­bund­inni mis­mun­un, kyn­ferðis­legri áreitni og kyn­ferðis­legu of­beldi voru birtar í dag, ásamt yfirlýsingu með undirskriftum 462 kvenna þar sem þess er kraf­ist að tekið sé föst­um tök­um á kyn­bundnu of­beldi og mis­rétti inn­an íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar. Frásagnir úr knattspyrnuheiminum eru þar á meðal.

Frétt mbl.is: Þjálfarinn var ógeðslegur

„Maður hefur auðvitað vitað af því að þessi yfirlýsing og þessar sögu myndu birtast og viðbrögðin eru auðvitað þess eðlis að þetta er eitthvað sem við munum að sjálfsögðu taka mjög alvarlega og athuga hvað það er sem að okkur snýr sem mögulega er hægt að gera til þess að bregðast við,“ segir Guðni.

Vilja bregðast rétt við 

Sjálfur er hann ekki búinn að hafa tíma til að fara yfir frásagnirnar. „Þetta var nú bara að birtast rétt í þessu og þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða betur og vanda okkur vel við og ég held að við í knattspyrnuhreyfingunni, eins og ég held bara almennt í samfélaginu, tökum þetta mjög alvarlega og viljum fyrir alla muni taka þátt í að bregðast rétt við og draga lærdóm og gera betur, helst auðvitað viljum við gera allt til þess að svona nokkuð sjáist ekki, hvort sem það er innan knattspyrnuhreyfingarinnar eða annars staðar í okkar samfélagi.“

Guðni segir að hann muni kalla saman starfsfólk KSÍ þar sem farið verði yfir stöðuna og næstu skref. „Við munum fara vel yfir þetta og við munum bregðast við og mögulega koma með tilhlýðilega yfirlýsingu hvað það varðar.“  

Tilefni til að skoða knattspyrnumenninguna

Í frásögnum íþróttakvennanna má greinilega sjá að áreitni og ofbeldi hefur viðgengst til lengri tíma, þó svo að sögurnar séu að koma upp á yfirborðið núna. Guðni segir að það verði að taka til greina þegar brugðist verður við.

„Ef  það er eitthvað í menningunni eða eitthvað sem við teljum að við getum gert til þess að stöðva hvers lags áreitni af þessum toga þá munum við leita allra leiða til þess að gera það í samvinnu við iðkendur, forráðamenn, þjálfara og alla sem koma að knattspyrnunni og munum þá skoða allt sem því við kemur.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert