Konur krefjast breytinga í íþróttum

„Við setjum því niður fótinn og biðjum um leikhlé,
„Við setjum því niður fótinn og biðjum um leikhlé," segir í yfirlýsingunni. AFP

Alls hafa 462 konur skrifað undir yfirlýsingu þar sem þess er krafist að tekið sé föstum tökum á kynbundnu ofbeldi og misrétti innan íþróttahreyfingarinnar.

Einnig hafa verið birtar 62 frásagnir kvenna úr heimi íþróttanna af kynbundinni mismunun, kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi.

„Stúlkur og konur eiga skilið að fá að iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af öllum toga,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við setjum því niður fótinn og biðjum um leikhlé.  Við sættum okkur ekki við mismunun, ofbeldi eða áreitni og köllum eftir breytingum.

Við krefjumst þess að málið sé tekið föstum tökum, að öll íþróttafélög, sérsambönd,  þjálfarar og aðrir innan íþróttanna, líti í eigin barm og lofi stúlkum og konum breytingum til frambúðar. 

Við krefjumst þess að umhverfi íþróttanna breytist, að konum sé gert kleift að segja frá ofbeldi án þess að það komi niður á framtíðarmöguleikum þeirra innan íþróttarinnar, að á þær sé hlustað, að með þeim sé staðið og að þeim sé trúað. Síðast en ekki síst krefjumst við þess að geta stundað íþróttir án þess að verða fyrir ofbeldi eða áreitni.“

Mikið valdamisræmi

Einnig kemur fram í yfirlýsingunni að mikið valdamisræmi sé á milli iðkenda annars vegar og þjálfara og annarra sem starfa í kringum íþróttina hins vegar.

„Vandamálið er sérstaklega viðkvæmt þar sem stór hluti iðkenda er börn og unglingar. Hvers konar ofbeldi og áreitni grefur undan sjálfstrausti, sjálfsvirðingu og vellíðan og fyllir þann sem fyrir því verður af skömm, sjálfsásökunum og ótta sem svo hefur áhrif á árangur.“

Þar segir einnig að því miður séu fordæmi fyrir því að konur sem staðið hafa á rétti sínum og látið vita af ofbeldi sem þær hafa verið beittar, hafi fengið á sig orð fyrir að vera erfiðar í samstarfi með tilheyrandi útskúfun og óréttlæti, ef á annað borð mark sé tekið á orðum þeirra.

„Gerendur sem hafa verið reknir á einum stað eru einfaldlega ráðnir annars staðar. Að sama skapi eru dæmi um það að félög hafi ekkert gert í málunum þrátt fyrir að  brot geranda hafi verið upplýst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert