Kanadamaðurinn Michael Boyd, sem missti eiginkonu sína í slysi við Jökulsárlón í ágúst 2015, telur dóminn sem karlmaður á þrítugsaldri fékk vegna slyssins of vægan. Einnig gagnrýnir hann seinagang íslenskra yfirvalda í málinu.
„Fyrir utan það að meðferð málsins hefur tekið tvö ár, fjóra mánuði og fjórtán daga finnst mér erfitt að réttlæta það hversu vægur dómurinn er,“ segir Michael Boyd við mbl.is.
Sá sem dæmdur var í gær var fundinn sekur um manndráp af gáleysi og hlaut tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm. Einnig var hann sviptur ökuréttindum í hálft ár. Hann var skipstjóri á hjólabát sem bakkað var á konuna á bílastæði Jökulsárlóns og lést hún samstundis.
„Annað sem ég skil ekki er hvers vegna fyrirtækið sem hafði umsjón með þessari starfsemi og átti farartækið var ekki ákært fyrir að hafa öryggisráðstafanir ekki í lagi en dauði eiginkonu minnar var bein afleiðing þess,“ bætir Boyd við og er afar ósáttur við íslenska dómskerfið.
Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa kom fram að maðurinn hafði ekki réttindi til að stýra bátnum. Þar segir að bakkmyndavél, sem er í öllum slíkum bátum sem sigla á Jökulsárlóni, hafi verið biluð og svo hafi verið um nokkurt skeið. Þá hafi hvorki skipstjórinn né annar starfsmaður gengið úr skugga um að hættulaust væri að aka aftur á bak.
Við aðalmeðferð málsins sagðist maðurinn saklaus og í greinargerð hans með málinu kom fram að hann teldi kanadísku konuna hafa sýnt af sér mikið gáleysi, að samstarfskona hans hefði ekki sinnt skyldu sinni og varað hann við og vinnuveitandi hefði borið ábyrgð á ófullnægjandi öryggisaðstæðum.
Boyd hefur áður gagnrýnt seinagang yfirvalda í málinu. Í lok ársins 2016 sendi hann Ólöfu Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, opið bréf þar sem hann kvartaði yfir því að 15 mánuðum eftir slysið hefði ekkert legið fyrir um hvort ákært yrði í málinu.