Óraunhæft að leggja allar línur í jörð

Landsnet er ósammála ýmsu sem kemur fram í skýrslu METSCO, …
Landsnet er ósammála ýmsu sem kemur fram í skýrslu METSCO, sem unnin var fyrir Landvernd. mbl.is/​Hari

„Í þessari skýrslu er hvergi sagt að hægt sé að leggja allar þessar línur í jörð. Það er einfaldlega bara gert og útreikningar miða við að það sé gert, en það er engan veginn raunhæft,“ segir Magni Þór Pálsson, verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti, um nýja skýrslu sem fjallar um leiðir til þess að styrkja raf­orku­flutn­ings­kerfið á Vest­fjörðum.

Í skýrslunni, sem unnin var fyrir Landvernd af kanadíska ráðgjafarfyrirtækinu METSCO Energy Solutions og iðnaðarráðherra veitt formlega móttöku í gær, kemur fram að tí­falda megi raf­orku­ör­yggi á Vest­fjörðum með því að setja hluta Vest­ur­línu og fleiri lín­ur á sunn­an­verðum Vest­fjörðum í jörð.

Landsnet sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem segir að tæknilegar hindranir komi í veg fyrir að hægt sé að leggja allar línur í jörð. Ólíkur styrkur flutningskerfisins milli landsvæða leiði til þess að svigrúm til jarðstrengslagna sé mismunandi. Þar sem kerfið er sterkt sé meira rými til jarðstrengslagna heldur en þar sem styrkurinn er lítill – og styrkur kerfisins á Vestfjörðum sé hvað veikastur.

Þá segir að skýrslan fjalli ekkert um þessa takmörkun á lengd jarðstrengja heldur geri skýrsluhöfundar ráð fyrir að hægt sé að leggja jarðstrengi á alla Vestfirði. Það sé óraunhæft og staðreyndin sé sú að einungis sé hægt að leggja hluta kerfisins í jörð.

Því séu fullyrðingar um að hægt sé að tífalda afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum með jarðstrengjum villandi.

Í tilkynningu Landsnets segir enn fremur að öll umræða um styrkingu á kerfinu sé af hinu góða, en að mikilvægt sé að hún byggist á réttum forsendum. Landsnet hvetur stjórnvöld til að gera sjálfstæða úttekt á niðurstöðum skýrslunnar.

Munur á jarðstrengjum og loftlínum

„Málið er það að jarðstrengir eru þannig uppbyggðir að þegar það er sett á þá spenna, þá myndast í þeim svokallað launafl. Jarðstrengurinn er byggður upp allt öðruvísi en loftlína. Hann framleiðir þar af leiðandi tuttugu til þrjátíu sinnum meira launafl heldur en sambærileg loftlína,“ segir Magni Þór.

„Afl í svona riðstraumskerfi er tvenns konar, annars vegar er það raunafl, sá hluti aflsins sem skilar vinnunni, knýr tækin og lýsir upp hjá okkur húsin og allt það. Síðan er það þetta svokallaða launafl, sem er dálítið erfitt að útskýra hvað er, en það er afl sem skilar engri vinnu.“

Landsnet telur óraunhæft að setja nema takmarkaðan hluta raflína á …
Landsnet telur óraunhæft að setja nema takmarkaðan hluta raflína á Vestfjörðum í jörð. mbl.is/Einar Falur

Magni Þór segir launaflið sveiflast fram og til baka í kerfinu, sem sé að sumu leyti nauðsynlegt, því það viðhaldi segulmögnun í raforkukerfinu. En það sé ekki aðalatriðið – heldur sé það að átta sig á því að launaflið í jarðstrengjunum hafi takmarkandi áhrif á það hvernig og hvar hægt sé að leggja línur í jörð.

Launaflið sé eins og froðan á jólaölinu

Þetta launafl þarf einhvern veginn að komast fyrir í kerfinu. Magni tekur dæmi.

„Nú eru jólin nýliðin og þú getur hugsað um það þegar þú ert að blanda malti og appelsíni í glas. Launaflið er þá froðan sem myndast – hún tekur pláss í glasinu en skilar þér ekki neinu. Svo getur froðan líka flætt upp úr – og þá er launaflið orðið of mikið til þess að kerfið, sem þú ert að leggja strenginn í, ráði við að „gleypa“ launaflið.“

Það sem stýrir því síðan hversu vel kerfið ræður við umfram-launaflið, er styrkur þess, en styrkur raforkukerfisins er mestur á suðvesturhorninu, þar sem eru margar stórar virkjanir og allir tengipunktar eru tengdir saman með tiltölulega mörgum sterkum flutningslínum.

„Þá tölum við um að kerfið hérna sé nokkuð vel „möskvað“ – með fleiri en eina tengileið á milli punktanna í kerfinu.“

Kerfið á Vestfjörðum afar veikt

Úti á landi séu línur hins vegar víða langar og veikar – og langt á milli virkjunareininga. Það leiði til þess að minna svigrúm sé til lagningar jarðstrengja.

„Á Vestfjörðum er styrkurinn brot af því sem hann er hér. Það er samspil þessa launafls í strengnum og styrks kerfisins sem er takmarkandi þáttur. Sú stærð sem við horfum svolítið á er hlutfall launaflsmyndunar strengs gagnvart styrk kerfisins á viðkomandi stað,“ segir Magni, en launaflsmyndun jarðstrengja er meiri eftir því sem strengirnir eru lengri.

Patreksfjörður. Flutningskerfi raforku á Vestfjörðum er mjög veikt.
Patreksfjörður. Flutningskerfi raforku á Vestfjörðum er mjög veikt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þegar jarðstrengir framleiða mikið launafl getur það haft áhrif á rekstur kerfisins og valdið spennusveiflum.

Þetta segir Landsnet að hafi komið í ljós eftir að 12 kílómetra langur strengur var lagður í Bolungarvíkurgöng fyrir nokkrum árum, en við rekstur á þeim jarðstreng hafi reynt á þolmörk kerfisins.

„Skyndilegt spennuhögg getur eyðilagt búnað og valdið því að varnarbúnaður í flutningskerfinu, sem hefur það hlutverkt að verja kerfið í truflunum, geti farið að hegða sér óæskilega,“ segir Magni og bætir því við að Landsnet sé með verkefni í gangi sem miði að því að bæta hringtengingar í flutningskerfinu innan Vestfjarða og bæta þar með afhendingaröryggið hjá notendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert