185 komu frá Cardiff til Akureyrar

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Þórdís Kolbrún Reykfjörð …
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, klipptu á borða eftir að vélin frá Cardiff lenti. Til vinstri er Hjördís Þórhallsdóttir flugvallarstjóri á Akureyri og hægra megin Hugo Kimber, stjórnarformaður Malvern Group, eiganda Super Break ferðaskrifstofunnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fyrst beina flugið frá Bretlandi til Akureyrar á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break var í dag. Boeing 737-800-vél á vegum félagsins lenti í hádeginu með 185 farþega og var tekið á móti hópnum með viðhöfn. Bæjarstjórinn á Akureyri og ráðherra ferðamála klipptu á borða eftir að farþegar gengu frá borði. Vélin átti svo að fara með rúmlega 100 farþega frá Akureyri til Edinborgar, höfuðborgar Skotlands; sá hópur kemur aftur heim á mánudag og Bretarnir snúa þá sömuleiðis til síns heima.

Starfsmenn Super Break hafa lengi unnið að skipulagningu flugferðanna til Akureyrar og urðu undirtektir miklu betri en þeir þorðu að vona. Var því ferðum fjölgað frá því sem upphaflega var ráðgert og nú í janúar og febrúar koma um 2.500 breskir ferðamenn til að skoða sig um á Norðurlandi.

„Farþegarnir munu reyna að koma auga á norðurljósin, skoða náttúrufegurðina við Mývatn og upplifa margvíslega aðra hluti, til dæmis fara í hvalaskoðun, á skíði og í jeppaferðir,“ sagði Chris Hagan, einn forsvarsmanna félagsins, í dag. 

Fyrsta vélin á vegum Super Break kom frá Cardiff í Wales og þar heilsaði fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, Akureyringurinn Aron Einar Gunnarsson, upp á ferðalangana fyrir brottför að beiðni ferðaskrifstofunnar. Flogið verður héðan og þaðan frá Bretlandi í vetur og Hagan sagði í samtali við mbl.is að næsta vetur yrði flogið enn oftar og frá enn fleiri borgum, og leynt og ljóst væri stefnt að því að bjóða Íslendingum að sama skapi upp á ferðir til breskra borga frá Akureyri.

Vert er að geta þess til gamans að Baldvin H. Sigurðsson, veitingamaður á Akureyrarflugvelli, var fenginn til að baka pönnukökur og bjóða farþegunum frá Cardiff. Ekki var annað að sjá en fólk kynni vel að meta viðurgjörninginn og kökurnar rynnu ljúflega niður ásamt íslensku vatni á flöskum sem einnig var í boði. Baldvin sagðist hafa bakað 400 pönnukökur.

Boeing 737-800 vél frá Enter Air brunar framhjá flughlaðinu á …
Boeing 737-800 vél frá Enter Air brunar framhjá flughlaðinu á Akureyrarflugvelli eftir að hún lenti í hádeginu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Röð myndaðist fyrir utan flugstöðina í rigningarúða á Akureyri þegar …
Röð myndaðist fyrir utan flugstöðina í rigningarúða á Akureyri þegar farþegarnir frá Cardiff stigu frá borði en þeir sem vildu gátu sest inn í strætisvagn þangað til þeir komust inn í bygginguna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Baldvin H. Sigurðsson, veitingamaður á Akureyrarflugvelli, bakaði 400 pönnukökur í …
Baldvin H. Sigurðsson, veitingamaður á Akureyrarflugvelli, bakaði 400 pönnukökur í morgun í tilefni dagsins og bauð öllum farþegunum frá Cardiff, ásamt íslensku vatni í flösku. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Akureyringurinn Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta og …
Akureyringurinn Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta og leikmaður Cardiff, heilsaði upp á farþega fyrir brottför að utan í morgun. Til vinstri er Hugo Kimber, stjórnarformaður Malvern Group, eigenda Super Break ferðaskrifstofunnar, og hægra megin Spencer Birns, framkvæmstjóri flugvallarins í Cardiff. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert