Hæstiréttur hefur staðfest frávísun skaðabótamáls sem Samtök sparifjáreigenda höfðuðu gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, Ingólfi Helgasyni, Magnúsi Guðmundssyni, Ólafi Ólafssyni og Sigurði Einarssyni. Héraðsdómur Vesturlands vísaði málinu frá dómi þann 8. desember.
Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar segir máli þessu vísað frá dómi án kröfu. Þá beri stefnanda að greiða þeim stefndu 800.000 krónur hverjum í málskostnað. Hæstiréttur telur málsástæður Samtaka sparifjáreiganda um saknæma og ólögmæta háttsemi fimmmenninganna verulega vanreifaðar og litlum gögnum studdar.
Einnig kom fram í dómnum að þótt rétt væri hjá Samtökum sparifjáreigenda að engu gæti breytt um óskipta skaðabótaábyrgð fimmmenninganna hvort hlutur hvers þeirra í ætlaðri saknæmri háttsemi kynni að hafa verið misjafn, mætti vera ljóst að slík skaðabótaábyrgð gæti ekki fallið á einstaka varnaraðila vegna atvika sem kynnu að hafa gerst áður en þeir áttu hlut að máli.
Þá kom fram að reifun samtakanna á atriðum varðandi umfang tjóns hefði verið háð verulegum annmörkum. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar og málinu vísað frá dómi.
Ólafur Ólafsson segir staðfestingu Hæstaréttar á frávísun héraðsdóms sýna að málatilbúnaðurinn hafi verið tilhæfulaus með öllu. Hann hefur ávallt lýst yfir sakleysi sínu í hrunmálunum og leitar enn réttar síns, að því er segir í fréttatilkynningu frá honum vegna málsins.
Samtök sparifjáreigenda fóru fram á rúmar 900 milljónir króna í skaðabætur vegna fjártjóns samtakanna af markaðsmisnotkun fimmmenninganna með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 9. október 2008.