Hæstiréttur staðfestir frávísun Kaupþingsmáls

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest frávísun skaðabótamáls sem Samtök sparifjáreigenda höfðuðu gegn Hreiðari Má Sig­urðssyni, Ingólfi Helga­syni, Magnúsi Guðmunds­syni, Ólafi Ólafs­syni og Sig­urði Ein­ars­syni. Héraðsdómur Vesturlands vísaði málinu frá dómi þann 8. desember. 

Málsástæður verulega vanreifaðar

Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar segir máli þessu vísað frá dómi án kröfu. Þá beri stefnanda að greiða þeim stefndu 800.000 krónur hverjum í málskostnað. Hæstiréttur telur málsástæður Samtaka sparifjáreiganda um saknæma og ólögmæta háttsemi fimmmenninganna verulega vanreifaðar og litlum gögnum studdar.

Einnig kom fram í dómnum að þótt rétt væri hjá Samtökum sparifjáreigenda að engu gæti breytt um óskipta skaðabótaábyrgð fimmmenninganna hvort hlutur hvers þeirra í ætlaðri saknæmri háttsemi kynni að hafa verið misjafn, mætti vera ljóst að slík skaðabótaábyrgð gæti ekki fallið á einstaka varnaraðila vegna atvika sem kynnu að hafa gerst áður en þeir áttu hlut að máli.

Þá kom fram að reifun samtakanna á atriðum varðandi umfang tjóns hefði verið háð verulegum annmörkum. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar og málinu vísað frá dómi.

Segir málatilbúnaðinn tilhæfulausan

Ólafur Ólafsson segir staðfestingu Hæstaréttar á frávísun héraðsdóms sýna að málatilbúnaðurinn hafi verið tilhæfulaus með öllu. Hann hefur ávallt lýst yfir sakleysi sínu í hrunmálunum og leitar enn réttar síns, að því er segir í fréttatilkynningu frá honum vegna málsins.

Sam­tök spari­fjár­eig­enda fóru fram á rúm­ar 900 millj­ón­ir króna í skaðabæt­ur vegna fjár­tjóns sam­tak­anna af markaðsmis­notk­un fimmmenninganna með hluta­bréf í Kaupþingi banka hf. á tíma­bil­inu 1. nóv­em­ber 2007 til 9. októ­ber 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert