Starfshópur vegna áreitni í íþróttum

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákveðið hefur verið að stofna starfshóp á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um gerð aðgerðaáætlunar um hvernig eigi að bregðast kynbundinni áreitni innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Þetta var niðurstaða fundar sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, boðaði með þremur fulltrúum íþróttakvenna, forseta ÍSÍ og framkvæmdastjóra UMFÍ í morgun.

Starfshópurinn á að samræma verklag og fræðslu innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar.

„Ég er mjög þakklát þessum konum sem hafa verið að stíga fram. Ég er sannfærð um að þetta framtak muni skila sér og gera varanlegar breytingar. Ég er líka mjög ánægð með forystu ÍSÍ og UMFÍ fyrir að koma strax að málum um að hægt sé að fara inn í þetta með þessum hætti,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Hún kveðst hafa boðað þau á sinn fund í framhaldi af yfirlýsingu íþróttakvenna og frásögnum þeirra sem voru birtar í gær.

Á fundinum greindu fulltrúar ÍSÍ og UMFÍ frá þeirri vinnu sem þegar væri hafin og einnig hvernig mætti efla hana. Fulltrúar íþróttakvenna komu einnig með tillögur, þar á meðal hvernig ríkið gæti komið að málum og sömuleiðis ÍSÍ og sérsamböndin með aukinni fræðslu, stefnumótun og gæðamótun.

Spurð út í frásagnir íþróttakvenna sem voru birtar í gær segir Lilja það hafa komið sér á óvart hversu umfangsmikið vandamálið sé. „Við ætlum að gera betur. Við ætlum að styrkja umgjörðina í kringum íþrótta- og æskulýðsmál á Íslandi og þess vegna erum við að mynda þennan starfshóp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert