„Við vorum afar ánægð með fundinn. Við fórum yfir stöðuna og það er greinilegur vilji til að ganga fljótt og hreint til verks í að leysa þetta,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, um fund Rauða krossins og heilbrigðisráðherra um rekstur sjúkrabíla sem var síðastliðinn miðvikudag.
Árið 2015 rann út samningur ríkisins og Rauða krossins um endurnýjun og rekstur sjúkrabíla og hafa þeir verið lausir upp frá því. Sjúkrabílarnir eru í eigu Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins sem jafnframt sér um rekstur þeirra. Haustið 2016 þegar samningur var nánast í höfn kom óvænt útspil frá ráðuneytinu um að bílarnir skyldu vera í eigu ríkisins án frekari útfærslna á því hvernig það yrði útfært.
Þetta ár var Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra en hann gegndi embættinu á árunum 2013 til 2017. Eftir það tók Óttarr Proppé við embættinu í skamman tíma.
Kristín segir ánægjulegt að hafa átt fund með heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, sem sýnir að málið er í vinnslu. Hún er jafnframt vongóð um að samningar náist fljótlega.