Óprúttinn aðili virðist stunda það að kúka í undirgöngum í Grafarvogi. Ingólfur Guðmundsson, starfsmaður Árvakurs, tók meðfylgjandi myndskeið, sem sýnir hvernig mannaskítshrúgur liggja með reglulegu millibili í undirgöngum á göngustíg undir Strandveg, á milli Borga- og Víkurhverfis.
Að sögn Ingólfs tók hann fyrst eftir því að mannaskítnum virtist vera raðað skipulega upp hinn 5. janúar síðastliðinn – og síðan þá hefur „vörðunum“ bara fjölgað.
Þó megi gera ráð fyrir að sami aðili hafi stundað þetta í lengri tíma, en Ingólfur segir að í nóvember og desember hafi hann einnig nokkrum sinnum tekið eftir mannaskít í undirgöngunum, en þó ekki í viðlíka magni og nú.
Notaðan klósettpappír er iðulega að finna í undirgöngunum, en Ingólfur segir að hann hafi einnig tekið eftir pappír í móunum á svæðinu í grennd við undirgöngin.
Ingólfur gengur með hundinn sinn þessa leið á hverjum degi í björtu og segir ljóst að þeir sem fari þarna um í myrkri eigi gætu mögulega orðið fyrir því óláni að stíga í skítinn.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafði ekki fengið tilkynningu um athæfið þegar mbl.is hafði samband núna síðdegis, en ætlaði að ganga í málið og hreinsa upp skítinn.