„Þetta er biðin endalausa en ég er viss um að þetta gerist núna á þessu ári. Þetta er gott ár, slétt tala,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson sem missti báða handleggi sína við axlir í slysi fyrir 20 árum. Hann bíður eftir að komast í aðgerð til að fá græddar á sig hendur í Lyon í Frakklandi en hann yrði jafnframt sá fyrsti í sögunni til að gangast undir slíka aðgerð. Hún gæti tekið allt að fjörutíu klukkustundir.
Guðmundur hefur beðið eftir að komast í aðgerð frá árinu 2013 þegar hann fór fyrst út til Frakklands í þeirri von að fá ágrædda handleggi. „Þegar við fórum fyrst út var þetta flóknara en við héldum. Þar sem þetta verður fyrsta aðgerð sinnar tegundar þurfti að fá samþykki margra læknanefnda o.s.frv.,“ segir Guðmundur.
Hann hefur verið á biðlista frá árinu 2016. Síðastliðið sumar datt hann út af biðlistanum því hann fékk sýkingu í bakið. Í slysinu fyrir 20 árum slasaðist hann mikið og var bakið meðal annars spengt saman. Hann hefur náð sér og er nú aftur kominn á biðlista.
Læknateymi hans sem mun framkvæma aðgerðina kom saman í desember síðastliðnum. Læknarnir vilja æfa aðgerðina einu sinni og verður sú aðgerð í næstu viku því þeir telja sig geta gert enn betur til að ná húðinni betur. Læknarnir hafa þegar gert fimm til sex aðgerðir, að sögn Guðmundar.
Á mánudaginn síðasta mátaði Guðmundur skurðstofuna aftur en hann gerði það síðast fyrir nokkrum árum. „Þeir þurfa að skipuleggja allt plássið eins vel og hægt er því það eru svo margir sem taka þátt í aðgerðinni með ótal tæki og tól. Það er svakalega magnað að fylgjast með þessu fagfólki. Ég verð alveg orðlaus af þakklæti og aðdáun í hvert skipti sem ég hitti læknateymið,“ segir Guðmundur vongóður og bjartsýnn á nýju ári um að fá handleggi.