Myndast hefur þrýstingur á stjórnvöld að ráðast í tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi. Það getur þó ekki gerst alveg í bráð því ekkert deiliskipulag er til fyrir vegarstæðið.
Í fjárlögum ársins 2018 er gert ráð fyrir 200 milljónum króna til að gera hringtorg á Esjumelum. Ekki er gert ráð fyrir frekari framlögum til vegabóta þarna, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.
„Í samgönguáætluninni sem samþykkt var haustið 2016 voru settar 700 milljónir í breikkun en það skilaði sér ekki í fjárlög og hefur ekki gert enn. Því verður að bíða nýrrar samgönguáætlunar sem á að leggja fyrir Alþingi á þessu þingi til að vita hvað verður með það. Málið er hins vegar í deiliskipulagsferli og reiknum við með að sú vinna klárist í vor,“ segir G. Pétur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Síðan þarf að auglýsa skipulagið með athugasemdafresti.