Ferðamaðurinn sem handtekinn var í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vikunni eftir að honum var vísað frá flugi vegna þess að hann var íklæddur átta buxum og tíu bolum segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við flugfélögin sem að málinu komu og íslensku lögregluna. Mbl.is náði tali af manninum, Ryan Carney Williams, sem kallar sig Ryan Hawaii, daginn eftir að hann komst loks heim til sín á Englandi eftir að hafa verið neitað um flugfar í tvígang.
Greint var frá því í fjölmiðlum að manninum hefði verið vísað frá flugi vegna þess að hann hafi reynt að komast hjá farangursgjaldi með því að klæða sig í átta buxur og tíu boli. Þá hafi hann verið handtekinn vegna óláta.
Williams segist sár yfir íslenskum fréttaflutningi af málinu, enda sé þar stór munur á að tíma ekki að borga farangursgjald og að hafa ekki efni á því. Hann hafi upphaflega fengið þær upplýsingar á innritunarborði British Ariways að honum væri leyfilegt að klæða sig í þau föt sem hann vildi hafa með sér fyrir innritun.
Annað hafi hins vegar komið á daginn þegar hann var kominn í fötin og ætlaði að innrita sig. Þá hafi honum verið neitað um brottfararspjald og ekki fengið upplýsingar um ástæður þess aðrar en þær að hann væri dónalegur. Þá var hann beðinn að víkja frá innritunarborðinu og kallað var á öryggisverði þegar hann neitaði.
Að lokum var lögregla kölluð á staðinn og að sögn Williams fékk hann ansi harða meðferð við handtöku, þar sem honum var meðal annars haldið í gólfinu og beittur piparúða. Að eigin sögn var hann kurteis og sýndi ekki af sér ósæmilega hegðun meðan á þessu stóð. Þar að auki hafi hann rétt þeim hendurnar þegar þeir sögðust ætla að handtaka hann.
Að skýrslutöku lokinni var Williams sendur aftur upp á flugvöll með leigubíl, sem hann borgaði fyrir með peningum sem móðir hans lánaði honum. Daginn eftir átti hann svo annað bókað flug með flugfélaginu EasyJet. Hann segir innritun og ferð sína um flugvöllinn hafa gengið áfallalaust fyrir sig, en þegar hann hafi loks komið að hliðinu hafi komið maður sem tjáði honum að hann fengi ekki inngöngu um borð vegna hegðunar sinnar daginn áður.
Williams varð því eftir hér á landi án farangurs og án peninga.
Williams hefur verið í samskiptum við British Airways vegna atviksins og segir málið útkljáð þeirra á milli þótt endurgreiðslan hafi enn ekki borist. Þá hafi EasyJet neitað honum um endurgreiðslu í fyrstu, en eftir að hann sagðist ætla lengra með málið hafi hann fengið fargjaldið endurgreitt.
Í gær fékk hann loks inngöngu um borð í vél Norwegian, en farangur hans er enn fastur á öðrum flugvelli í Englandi.
Williams segist hvað sárastur yfir meðferðinni sem hann telur sig hafa fengið vegna kynþáttafordóma. Hann segir þá sem áttu í hlut ekki endilega vera kynþáttahatara heldur hafi þau áætlað ákveðna hluti í fari hans vegna útlits hans. Hann sé hávaxinn þeldökkur maður með „dreadlocks“, auk þess sem hann gangi í áberandi fötum og með naglalakk.
Eftirfarandi athugasemd barst frá British Airways vegna málsins:
Við gefum viðskiptavinum okkar kost á að velja úr breiðu úrvali mismunandi fargjalda til að geta mætt mismunandi þörfum viðskiptavina. Verð fyrir handfarangur okkar á leið frá Íslandi er mjög lágt eða aðeins 47£ fyrir hvora leið og er hannað fyrir viðskiptavini sem ferðast án handfarangurs. Við skiljum að áætlanir viðskiptavina okkar geta breyst og þess vegna eiga þeir þess kost að greiða sérstakt gjald á flugvellinum ef þeir þurfa auka tösku. Við útskýrðum þessar reglur félagsins fyrir viðskiptavininum og skipulögðum annað flug til Lundúna.