„Þetta er frekar lítil mengun, en yfir mörkum samkvæmt íslensku neysluvatnsreglugerðinni, og okkur þótti rétt að láta almenning vita, eins og rétt er,“ segir Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.
Fjölgun jarðvegsgerla hefur mælst í kalda vatninu í Reykjavík, en tvö sýni sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tók 12. janúar stóðust ekki viðmið í reglugerð.
Frétt mbl.is: Jarðvegsgerlar í kalda vatninu í Reykjavík
Tvenns konar mælingar hafa farið fram síðustu daga. Í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur kemur fram að 11. janúar hafi 1 E-coli / 100 ml mælst í neysluvatnssýnum úr borholum í rekstri á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. „E. coli er baktería sem ekki á að finnast í vatninu. Þetta frávik í neysluvatninu varð vegna mikils vatnsveðurs þann 9. janúar sl.,“ segir í tilkynningunni.
Árný segir að vatn úr þeirri borholu hafi aldrei borist í dreifikerfið. Því hafi aldrei verið um E-coli-mengun að ræða.
Í sýnum sem tekin voru í kjölfar mikils vatnsveðurs 11. og 14. janúar hefur hins vegar komið í ljós að ofanvatn hefur komist í borholur og finnast jarðvegsbakteríur í vatninu úr nokkrum borholum. Jarðvegsgerlar eru gerlar sem finnast meðal annars í mold og sandi. „Þetta getur verið gróður eða mold sem liggur ofan á klakanum,“ segir Árný.
Víða erlendis telst magnið sem mælst hefur í dreifikerfinu hér á landi ekki til tilkynningaskyldrar mengunar, að sögn Árnýjar. „En við erum vön hreinu vatni og þetta er okkar regluverk og þess vegna gáfum við út tilkynninguna.“
Áfram verður fylgst vel með borholunum og mun Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar vinna náið með sóttvarnarlækni og Matvælastofnun við eftirlitið. „En það er engin hætta á ferðum,“ segir Árný.
Í varúðarskyni mælir Heilbrigðiseftirlitið samt sem áður með því að neysluvatn í vissum hverfum borgarinnar sé soðið ef um neytendur er að ræða sem eru viðkvæmir. Með viðkvæmum er átt við þá sem eru til dæmis með lélegt ónæmiskerfi, ungbörn, aldraða eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma.
Hverfin sem mengunin nær til eru öll hverfi borgarinnar nema Grafarvogur, Norðlingaholt, Úlfarsárdalur og Kjalarnes auk Mosfellsbæjar.