Fjölskyldan komin með húsnæði

Ekkert stendur eftir af húsinu í Mosfellsbæ eftir eldsvoðann.
Ekkert stendur eftir af húsinu í Mosfellsbæ eftir eldsvoðann. mbl.is/Hanna

Fjölskylda sem missti allt sitt í eldsvoða í Mosfellsbæ í síðustu viku er komin með bráðabirgðahúsnæði og langtímahúsnæði er innan seilingar. Í ljós hefur komið að fjölskyldan var með innbústryggingu og fær því tjónið að miklu leyti bætt. Þetta segir Nanna Vilhelmsdóttir, nágranni fjölskyldunnar, sem hafði staðið fyrir söfnun henni til handa.

Gríðarleg viðbrögð voru við söfnuninni og fékk fjölskyldan á augabragði nauðsynlegan fatnað fyrir börnin og eitt og annað á hina fullorðnu.

„Það er alveg ótrúlegt hvað fólk er fallega þenkjandi,“ segir Nanna í samtali við mbl.is um árangur söfnunarinnar. Hún segir mun fleiri en Mosfellinga hafa brugðist vel við kallinu. „Það var fólk úti um allt land sem tók þátt,“ segir Nanna. „Ég fékk símtöl frá Neskaupstað og Húsavík og alls staðar að af landinu. Það er alveg magnað hvað samstaðan er mikil þegar svona kemur upp á.“

Nanna segir að margir finni til með fólki sem lendi í þessari stöðu. Það hafi hún sjálf gert. „Maður verður svo meyr, sérstaklega þegar um er að ræða börn sem lenda í svona stöðu svo maður gerir bara það sem maður getur.“

Fjölskyldan fékk fyrst skjól á gistiheimili á vegum Rauða krossins en er nú komin í húsnæði í heimabænum Mosfellsbæ. 

„Þetta er rosalegt áfall og það tekur tíma að vinna úr því,“ segir Nanna spurð um líðan fjölskyldunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert