Kínverskur karlmaður, sem fluttur var af vettvangi rútuslyss í Eldhrauni 27. desember á gjörgæslu Landspítalans, er látinn. Foreldrar mannsins, sem fæddur var 1996, höfðu verið hjá honum undanfarna daga og notið aðstoðar starfsmanna kínverska sendiráðsins.
Enn munu einhverjir, þeirra á meðal ökumaður rútunnar, vera á almennum deildum spítala í kjölfar slyssins, að því fram kemur í frétt á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.
Áður hefur komið fram að kínversk kona á þrítugsaldri lést í slysinu.
Alls voru 44 ferðamenn í rútunni sem valt vestan við Kirkjubæjarklaustur og slösuðust margir illa. Allar þrjár þyrlur Landhelgisgæslu Íslands sinntu sjúkraflutningum af slysstað og tólf voru fluttir á Landspítalann.