Áhrif eldgossins í Holuhrauni haustið 2014 á eðlis- og efnafræðilega eiginleika umhverfisins voru mikil og meiri en talið hefur verið. Þetta segir í kynningu á nýju riti vísindamanna sem ber yfirskriftina Áhrif Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu.
Þar fjalla sérfræðingar á ólíkum fagsviðum um mögulegt umhverfisálag vegna eldgosa og gera grein fyrir helstu niðurstöðum rannsókna þar sem reynt var að meta áhrif eldgossins í Holuhrauni á umhverfi og heilsu.
Vísindamenn segja að gas frá gosinu í Holuhrauni hafi haft mælanleg áhrif á umhverfi þótt gosið hefði verið inni á reginfjöllum að vetri til og fjarri mannabústöðum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.