Flugfélagið án tekna í einn mánuð á ári

Á hverju ári falla niður tæplega 10% ferða Air Iceland …
Á hverju ári falla niður tæplega 10% ferða Air Iceland connect. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Í fyrra var 7,2% af öllum flugum Air Iceland connect aflýst og árið 2016 var 9,2% af öllum flugum aflýst. Hlutfallslega þýðir það að félagið þarf að loka í um 30 daga á ári þar sem engar tekjur koma en á sama tíma þarf að greiða laun og jafnvel bætur. Þetta kom fram í máli Gríms Gíslasonar, markaðsstjóra félagsins, á fundi Isavia um framtíð innanlandsflugs í morgun.

Sagði hann veðurfar og fleira valda því að mikið væri um raskanir á flugi hér á landi. „Þetta er erfitt umhverfi,“ sagði hann um starfsumhverfis flugs hér á landi, en væri um leið krefjandi og skemmtilegt.

Kostnaður flugfélagsins vegna raskana nam 81 milljón í fyrra og 99 milljónum árið áður. Þá voru bætur til farþega um 10 milljónir í fyrra og 7,5 milljónir árið áður.

Í erindi sínu fór Grímur yfir rekstrarumhverfi félagsins og benti meðal annars á að um 50% farþega bókaði ferð með innan við viku fyrirvara. Sagði hann það gefa auga leið að með svo stuttum fyrirvara fengi fólk ekki besta verðið sem er í boði þar sem það væri alltaf dýrara að bóka með stuttum fyrirvara.

Grímur Gíslason, markaðsstjóri Air Iceland connect, á fundinum í morgun
Grímur Gíslason, markaðsstjóri Air Iceland connect, á fundinum í morgun mbl.is/Þorsteinn

Benti hann á að í gær hefði hann skoðað flugfargjöld tvo mánuði fram í tímann og þá hefðu flest flug verið á undir 10 þúsund krónur aðra leið á áfangastaði félagsins.

Grímur gagnrýndi þá það starfsumhverfi sem félagið byggi við, til dæmis á Reykjavíkurflugvelli þar sem félagið hafi óskað eftir því við Isavia í fimm ár að fá að malbika bílastæði við völlinn en ekki fengið leyfi. Þá væri stefnuleysi og skortur á ákvarðanatöku í málefnum vallarins sem kæmi niður á langtímaáætlunum félagsins.

Lýsti hann einnig skorti á almenningssamgöngum nálægt bæði Reykjavíkurflugvelli og Akureyrarflugvelli sem væri slæmt sérstaklega fyrir erlenda ferðamenn.

„Þetta er ekki umhverfi sem er hægt að bjóða viðskiptavinum eða starfsmönnum upp á,“ sagði hann um rekstrarumhverfið og ítrekaði að nákvæmari stefna þyrfti að vera hjá ríkinu um hvaða leið ætti að taka upp, en fram kom á fundinum að hvorki flugrekendur né notendur flugsins væru í raun ánægðir með núverandi stöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert