Körfuboltapabbi á Króknum

Körfuboltafeðgarnir Kári Marísson (t.h.) og Axel, sonur hans, með bikarinn …
Körfuboltafeðgarnir Kári Marísson (t.h.) og Axel, sonur hans, með bikarinn sem Tindastóll vann um síðustu helgi með stórsigri á KR. mbl.is/Björn Björnsson

Tindastóll frá Sauðárkróki vann bikarinn í meistaraflokki karla í körfubolta á laugardaginn var. Þetta var í fyrsta sinn sem Tindastóll vann svo stóran titil í meistaraflokknum. Kári Marísson körfuboltamaður á að öðrum ólöstuðum stóran hlut í velgengni Tindastóls.

„Ég er bara hluti af heildinni, þjálfa nú í yngri flokkum og styð við bakið á öllu og öllum,“ sagði Kári. Hann sagði marga hafa lagt sitt af mörkum og auk sigurliðsins hefði stjórn Tindastóls staðið sig frábærlega við fjáröflun og stjórn félagsins.

„Ég er búinn að vera viðloðandi körfubolta í Skagafirði síðan vorið 1978. Þá byrjaði ég að þjálfa hér og hef verið við þetta síðan,“ sagði Kári. Hann flutti í Skagafjörð til að vera bóndi og ræktaði holdanaut og var með eggjabú í Sólheimum í Blönduhlíð í 17 ár. Um leið var hann kennari og skólastjóri í grunnskólanum í Héðinsminni. Kári er nú húsvörður í Árskóla á Sauðárkróki.

Tindastóll komst í efstu deild 1988 og þá tók Valur Ingimundarson við sem þjálfari og Kári varð aðstoðarþjálfari. Hann þjálfaði líka meistaraflokk kvenna og yngri flokka Tindastóls. Af liðsmönnum sigurliðsins þjálfaði Kári þá Pétur Rúnar Birgisson, Hannes Inga Másson, Finnboga Bjarnason og fleiri í yngri flokkum. Þeir urðu bikarmeistarar í 9. flokki árið 2011 undir stjórn Kára.

Axel, sonur Kára, er einnig í sigurliðinu. Hann er nýlega fluttur heim frá Danmörku þar sem hann lærði dýralækningar og lék körfubolta. Hann lék einnig með KR. Kristín Björk, uppeldisdóttir Kára, lék körfubolta með KR og varð Íslandsmeistari þrisvar. María, dóttir Kára, lék einnig með KR og Haukum. Kári á nú tvö ung börn, fjögurra ára og 18 mánaða. „Þessi fjögurra ára gekk inn með Axel í Höllina á laugardag, ég vona að það hafi kveikt eitthvað í henni,“ sagði Kári og hló.

Á félagssvæði Tindastóls búa um 4.000 manns. Kári sagði starfið hafa fengið mikla athygli og góða umfjöllun í gegnum árin. Það hjálpaði til við að afla nýliða.

„Fólkið vill þetta og krakkarnir hafa viljað koma og æfa. Mér finnst þó aðeins vera orðin breyting, tölvurnar taka orðið meiri tíma en áður,“ sagði Kári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert