Mikið vatn soðið og flöskum dreift

„Við þurftum að sjóða mjög mikið af vatni og kæla það til að hafa það tilbúið fyrir sjúklingana,“ segir Bylgja Kærnested, deildarstjóri hjartadeildar Landspítalans, um ástandið sem myndaðist eftir að starfsfólk spítalans var beðið um að sjóða allt neysluvatn á spítalanum. 

Það var því töluvert aukaálag á sjúkrahúsinu sem myndaðist í kjölfar þess að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf það út að jarðvegsgerla væri að finna í neysluvatni í Reykjavík. Á sumum deildum eru síur á krönum sem búið var að gefa út að myndu duga til að hreinsa vatnið.

Nú er búið að gefa það út að óhætt sé að nota vatnið en töluverð óvissa ríkti á sjúkrahúsinu í morgun á meðan frekari tilmæla var beðið. Mikið magn af átöppuðu vatni hafði verið keypt inn og var því dreift með matnum í hádeginu.

mbl.is var á Landspítalanum í morgun þar sem hraðsuðukatlarnir voru nýttir til hins ýtrasta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert