Samstarfsnefnd um sóttvarnir fundar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Stjórnskipuð samstarfsnefnd um sóttvarnir mun funda í dag vegna jarðvegsgerla sem hafa mælst í neysluvatni í Reykjavík.

Samkvæmt sóttvarnarlögum fjallar nefndin um mál á borð við þau sem komu upp í gær.  Í henni eru fulltrúar embættis landlæknis, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar og Geislavarna ríkisins.

Nefndin getur kallað til sín ýmsa sérfræðinga, þar á meðal frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og lækna. Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis er Ólafur Guðlaugsson, yfirmaður sýkingavarnadeildar Landspítala, einn þeirra sem hafa verið boðaðir á fundinn.  

„Næsta skref er að hafa samráð og sjá hvernig menn vilja hafa áframhaldið,“ segir Þórólfur  um stöðuna.

„Það þarf að kalla til ákveðna sérfræðinga og fá botn í málið eins og mögulegt er,“ segir hann og gerir ráð fyrir stífum fundarhöldum í dag vegna málsins.

Fleiri sýni verða tekin í dag.
Fleiri sýni verða tekin í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sýni tekin aftur í dag

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tók neysluvatnssýni úr borholum síðdegis í gær og mun fá einhverjar niðurstöður úr þeim í dag en endanlegar niðurstöður á morgun. Tekin verða sýni aftur í dag.

„Það er engin hætta á ferðum. Þetta er út af öfgaaðstæðum í veðri og við ráðum ekki við þetta,“ segir Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert