Spurt & svarað um neysluvatn

Úr Heiðmörk.
Úr Heiðmörk. Ómar Óskarsson

Á vef Veitna eru birtar spurningar og svör um neysluvatnið og mengun af völdum jarðvegsgerla. Það er því m.a. svarað hvort jarðvegsgerlar eru hættulegir.

Eru jarðvegsgerlar hættulegir?

Ekki í litlu magni. Nota má vatnið eins og vanalega. Heilbrigðiseftirlitið hefur í varúðarskyni gefið út að viðkvæmt/veikt fólk, ungbörn og aldraðir ættu að drekka soðið vatn.

Jarðvegsgerlar er heiti yfir fjölmarga gerla (bakteríur) sem finnast í umhverfi okkar og eru nauðsynlegir fyrir lífríkið og yfirleitt alveg skaðlausir.

Hafa fundist E.coli gerlar (saurkólígerlar)?

Í síðustu viku fundust E.coli gerlar í þremur sýnum, einn í hverju. Þær holur voru teknar strax úr rekstri. Í staðfestum niðurstöðum nýjustu sýna fundust 2 gerlar í sýni úr holu sem ekki er verið að nota. 

Má elda úr vatninu?

Já, suða drepur jarðvegsgerlana. 

Hvaðan koma þessi gerlar?

Gerlarnir berast með úrkomu af yfirborði ofan í grunnvatn og þaðan í borholurnar. Hláka eykur líkur á að slíkt gerist. Borholur sem safna grunnvatni af litlu dýpi eru viðkvæmari fyrir þessu.  

Af hverju gerist þetta núna?

Það hafa verið sérstakar veðuraðstæður undanfarið. Mikil hláka í kjölfarið á löngum frostakafla. Við slíkar aðstæður kemst yfirborðsvatn auðveldar ofan í grunnvatnið sem við erum svo að dæla úr borholunum. 

Hversu lengi má búast við að aukið gerlamagn finnist í vatninu?

Við teljum líklegt að þar sem hlákan er búin og komið frost þá séum við að sjá fyrir endann á þessu. Við reynum að staðfesta það með niðurstöðum úr sýnatökum á næstu dögum. 

Hvernig ætla Veitur að bregðast við?

Viðbragðsáætlun vegna hláku er í gildi allan veturinn (borholur í Gvendarbrunnum eru t.d. viðkvæmar fyrir auknu gerlamagni vegna hláku og því ekki í notkun frá október fram til loka mars, samkvæmt áætluninni). Við tökum líka holur úr rekstri í hláku sem eru viðkvæmar fyrir ofanvatninu sem ber gerlana. 

Viðbragðsáætlunin verður yfirfarin. Sýnatökum verður fjölgað og fyrirbyggjandi aðgerðir skoðaðar.

Hversu oft eru tekin sýni?

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur sýni úr dreifikerfinu tvisvar í viku. Veitur taka taka að auki sýni í hlákutíð í öllum borholum sem eru í notkun. Það var við slíkt eftirlit sem þessi frávik komu í ljós. Sýnataka hefur verið aukin mjög í ljósi þessara tíðinda. 

Hversu oft mælast gerlar yfir mörkum í neysluvatninu?

Árið 2011 komu síðast staðfestar niðurstöður um frávik í gerlamagni í borholu í Heiðmörk.  Af og til gerist það að sýnataka misheppnast þannig að hún sýni aukið gerlamagn sem frekari sýnataka hefur ekki staðfest. 

Hverjir fá vatnið frá borholum Veitna í Heiðmörk? 

Vatn frá vatnstökusvæðum Veitna í Heiðmörk fer til íbúa og fyrirtækja í Reykjavík, Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ. 

Aukinn fjöldi gerla fannst í vatni sem fer til eftirfarandi svæða á höfuðborgarsvæðinu: Öll hverfi Reykjavíkur vestan Elliðaáa auk Bryggjuhverfis, Grafarvogs utan Húsahverfis, Ártúnshöfða, Kjalarnes sem og Seltjarnarnes.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert