Taka vatnssýni á Seltjarnarnesi

Seltjarnarnes.
Seltjarnarnes. mbl.is/Ómar

Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðisins tekur vatnssýni á Seltjarnarnesi og í vatnsbóli í Mosfellsbæ í dag vegna jarðvegsgerla sem hafa mælst í kalda vatninu á Seltjarnarnesi, eins og í sumum hverfum í Reykjavík sem fá vatn úr ákveðnum borholum í Heiðmörk.

Um er að ræða lítið vatnsból í Mosfellsbæ fyrir lítinn hluta bæjarbúa, sem þegar er búið er að slökkva á.

Að sögn Árna Davíðssonar, heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, koma niðurstöður símleiðis eftir tvo daga. Heildarniðurstöðurnar eru væntanlegar degi síðar.

„Það er alveg óhætt fyrir almenning að drekka þetta vatn,“ segir hann en nefnir að enn sé mælt með því að sérstaklega viðkvæmir neytendur skuli nota soðið vatn, þar á meðal gamalt fólk, fólk með ofnæmi og ungabörn.

„Þetta er svolítið blásið upp. Satt best að segja er ekki mikil hætta á ferðum. Þetta gerist í flestum vatnsbólum landsins einhvern tímann yfir árið,“ greinir hann frá og nefnir að sami gerlafjöldi komi oft upp í sumarbústöðum eftir leysingar eða rigningar á haustin.

„Menn geta alveg verið rólegir, ég drekk þetta vatn alveg hiklaust.“

Árni reiknar með því að Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis taki fleiri sýni á morgun, eða þangað til skýr skilaboð komi varðandi stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert