Ekki bara Afríka

Kar­ine Nord­strand, yfirmaður MSF í Noregi, og Pia Fjellner, sem …
Kar­ine Nord­strand, yfirmaður MSF í Noregi, og Pia Fjellner, sem er bráðahjúkrunarfræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að flest verkefni mannúðarsamtakanna Læknar án landamæra séu í Afríku þá sinna samtökin verkefnum í Evrópu. Meðal annars í Svíþjóð, Grikklandi og víðar. Þar eru það verkefni tengd flóttafólki og andlegri líðan þess sem eru efst á baugi. 

Norskir starfsmenn samtakanna eru að kynna starfsemina á Læknadögum í Hörpu, þar á meðal Kar­ine Nord­strand, yfirmaður MSF í Noregi. Auk hennar koma þrír norskir starfsmenn að kynningunni, Pia Fjellner, sem er bráðahjúkrunarfræðingur, Itta Helland-Hansen, sem starfar sem flæðisstjóri (logistic) hjá MSF, og Trygve Thorson, sem er talsmaður MSF. Jafnframt er Helena Jónsdóttir þeim til aðstoðar en hún hefur starfað hjá Læknum án landamæra í þrjú ár.

Þær Pia og Itta Helland segja að erfitt sé að lýsa starfi samtakanna á einfaldan hátt því þau starfi á svo mörgum og um leið ólíkum sviðum sem öll miða að því að bæta líf fólks og í raun oft að veita fólki líf. Því eitt af mikilvægustu verkefnum MSF er að veita þunguðum konum og nýburum þjónustu í ríkjum eins og Líberíu þar sem barnadauði er daglegt brauð. Sjúkdómar herja á fólk sem við á Vesturlöndum þekkjum ekki lengur og eru ekki arðbærir fyrir lyfjafyrirtækin að sinna, því þeir herja á fólk í fátækum ríkjum sem ekki hefur ráð á að greiða svimandi háar fjárhæðir fyrir lyf. 

Itta Helland-Hansen, sem starfar sem flæðisstjóri (logistic) hjá MSF, hefur …
Itta Helland-Hansen, sem starfar sem flæðisstjóri (logistic) hjá MSF, hefur meðal annars sinnt verkefnum tengdum ebólu. Hér er hún við búning sem starfsfólk þarf að klæðast þegar það sinnir sjúklingum með ebólu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flestir starfsmenn Lækna án landamæra eru innlendir og njóta stuðnings alþjóðlegs fagfólks á mörgum sviðum. Til að mynda þegar ebólu-faraldurinn geisaði í Vestur-Afríku 2014 og 2015. Læknar án landamæra gátu brugðist hratt við enda að störfum í þessum löndum, svo sem Síerra Leó­ne og Líb­eríu. 

Eins og Pia bendir á greindist ebóla fyrst í Kongó árið 1976 og var löngu byrjað að þróa bóluefni þegar faraldurinn braust út. En löndin eru fátæk og ekki arðbært fyrir lyfjafyrirtækin að vinna við lyfjaþróun þar fyrr en faraldur sem kostaði þúsundir lífið braust út.

Samtökin Læknar án landamæra kynna starfsemi sína á Læknadögum í …
Samtökin Læknar án landamæra kynna starfsemi sína á Læknadögum í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baráttan við ebólu reyndi mjög á starfsfólk MSF því bara það að klæða sig í búninginn sem unnið er í er meira en að segja það. Að hámarki er hægt að vera um klukkustund í slíkum búning án þess að líða út af og það er þrautin þyngri að koma rænulausri manneskju úr búningnum segir Itta. Þegar farið er úr stígvélunum er hellt úr þeim því svitinn bogar af fólki. Teymin þurfa að vera fjölmenn því hver einstaklingur getur ekki unnið í meira en 3 til 4 tíma á dag og gæta þarf þess að fólk drekki nógan vökva og nærist annars er hætta á að illa fari.

Kar­ine Nord­strand, yfirmaður MSF í Noregi, og Trygve Thorson, talsmaður …
Kar­ine Nord­strand, yfirmaður MSF í Noregi, og Trygve Thorson, talsmaður MSF. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Piu er eitt af því sem MSF gefur sig út fyrir að geta, að vera komið með aðstoð á vettvang innan tveggja sólarhringa. Það gerist ekki nema með gríðarlega góðu og um leið miklu skipulagi. MSF rekur stór vöruhús á fimm stöðum, skammt frá flugvöllum, þar sem allt er til taks. Til að mynda ef náttúruhamfarir verða, því þá getur hver klukkustund þangað til hjálp berst skipt sköpum.

Jafnframt þarf lyfjabúr samtakanna að vera gott og um leið má ekki vera of mikið til af lyfjum því lyf eru dýr og viðkvæm vara sem fylgjast þarf mjög með þegar þau eru flutt á milli landa oft við erfiðar aðstæður. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

MSF starfar oft með heimafólki á strjálbýlum svæðum sem þarf að geta brugðist við þó svo að það hafi ekki menntun á sviði lækninga. Þess vegna er lagt mikið upp úr því að vera með nákvæmar leiðbeiningar um hvernig gera eigi að beinbrotum, sinna konum í barnsnauð, magakveisum o.fl.

Eins er alls ekki sjálfgefið að blóðbankar séu starfandi á þeim svæðum þar sem MSF sinnir verkefnum. Því þurfa starfsmenn að leita til fólks í fjölskyldum þess sem þarf á blóðgjöfinni að halda og ganga þarf úr skugga um að viðkomandi sé ekki smitaður af HIV o.fl. Aldrei er gefið blóð án þess að skimað sé fyrir því að blóðgjafinn sé ekki með HIV, sýfilis eða lifrarbólgu C.

Búnaður frá Læknum án landamæra.
Búnaður frá Læknum án landamæra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Itta hefur komið að margvíslegum verkefnum þessi fimm ár sem hún hefur starfað fyrir Lækna án landamæra og hún segir að það hafi ekki hvarflað að sér þegar hún hóf störf að hún myndi starfa í Evrópu við neyðaraðstoð. En það hefur hún heldur betur gert því hún starfaði lengi á Lesbos við flóttamannaaðstoð auk þess sem hún hefur verið fyrir MSF á fleiri grískum eyjum og í Aþenu. Síðasta sumar starfaði hún á björgunarskipum á Miðjarðarhafi við að bjarga flóttafólki sem var á leið til Ítalíu frá Líbýu. Það hafi oft tekið á og reynt á skipulagshæfileikana því fjöldinn var gríðarlegur og aðstæður fólks skelfilegar. 

Samtökin Læknar án landamæra munu kynna starfsemi sína fyrir áhugasömum í kvöld á Kex hostel og eftir viku á sama stað.

Hér er hægt að kynna sér málið nánar

Læknar án landamæra sinna verkefnum út um allan heim.
Læknar án landamæra sinna verkefnum út um allan heim. mbl.is/Kristinn Magnússon
Pia Fjellner, sem er bráðahjúkrunarfræðingur og starfsmaður Lækna án landamæra.
Pia Fjellner, sem er bráðahjúkrunarfræðingur og starfsmaður Lækna án landamæra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert