Þarf að lækka blóðþrýsting þjóðarinnar

Hreyfing hefur áhrif á blóðþrýstinginn.
Hreyfing hefur áhrif á blóðþrýstinginn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

40% af öllum í heiminum eru með of háan blóðþrýsting og talið er að þetta sé ein helsta heilsuvá í dag, samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Samkvæmt nýjum klínískum leiðbeiningum er mikilvægt að halda blóðþrýstingi mun lægri en áður var talið. Læknar og heilbrigðisstarfsfólk þarf að rannsaka frekar mögulegar orsakir fyrir of háum blóðþrýstingi þar sem mögulegt er að finna læknanlegar orsakir fyrir háum blóðþrýstingi. Þetta kom fram í málstofunni; Frumkomið aldósterónheilkenni – læknanleg orsök háþrýstings á Læknadögum í Hörpu í dag.

Samkvæmt nýjum viðmiðum um blóðþrýsting á hann að vera 120 mmHg í efri mörkum og undir 80 í neðri. „Það skiptir miklu máli að finna læknanlegar orsakir háþrýstings eins og frumkomið aldósterónheilkenni. Þá er hægt að koma í veg fyrir ýmsa fylgikvilla,“ segir Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, prófessor og sérfræðingur í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum, ein af þeim sem hélt erindi á málstofunni og skipulagði hana. Hár blóðþrýstingur eykur meðal annars líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.

Lækkum ekki blóðþrýstinginn nógu mikið 

Talið er að allt að 10% af þeim sem eru með of háan blóðþrýsting eru með þetta heilkenni. Nú er einfaldara að skima fyrir þessu heilkenni. „Það er mikilvægara að meðhöndla einn einum of mikið með réttri lyfjameðferð ef grunur er um frumkomið aldósterónheilkenni, en einum of fáa,“ segir Helga.

Hár blóðþrýstingur er einnig vangreindur. „Við erum ekki heldur að lækka blóðþrýstinginn nógu mikið þegar við finnum hann samkvæmt nýjustu viðmiðum,“ segir Helga og bendir á að í ljósi nýrra viðmiða um blóðþrýsting þurfi læknar að gera betur í að lækka blóðþrýsting sjúklinga sinna.

Lakkrís er vinsæll í eftirréttum.
Lakkrís er vinsæll í eftirréttum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einstaklingar sem eru með háþrýsting geta sjálfir verið vakandi fyrir því hvort þeir séu með þetta tiltekna heilkenni, frumkomið aldósterónheilkenni, og haft samband við lækninn sinn. Þetta eru til dæmis þeir einstaklingar sem taka mörg lyf við háum blóðþrýstingi, eru með erfiðan háan blóðþrýsting, lágt kalíum í blóði, kæfisvefn o.s.frv.

Lakkrís bælir ensím og eykur virkni streituhormóns

Lakkrís er neysluvara sem hefur sömu virkni og aldósterón í líkamanum. Það bælir ákveðið ensímkerfi í líkamanum sem veldur því að við förum að safna vatni, salti, tapa kalíum frá nýrunum o.fl. Þegar þetta tiltekna ensím er bælt eykst virkni streituhormónsins kortosol í líkamanum. „Þeir sem eru með háan blóðþrýsting hækka miklu meira við að borða lakkrís en þeir sem eru ekki með háan blóðþrýsting,“ segir Helga en tekur fram að það skiptir máli hversu sterkur hann er. Hún hélt einnig hádegisfyrirlestur sem nefnist lakkrís og áhrif hans á heilsu okkar á Læknadögum í dag.

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, prófessor og sérfræðingur í innkirtla- og efnaskiptajúkdómum.
Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, prófessor og sérfræðingur í innkirtla- og efnaskiptajúkdómum. Ljósmynd/Aðsend

„Það er áhyggjuefni að lakkrís er kominn alls staðar. Þú ferð varla út að borða án þess að fá lakkrís í sósuna út á lambakjötið, lakkrís í eftirréttinn eða lakkrís í bjórnum sem er drukkinn með matnum. Það er alls staðar búið að koma lakkrís fyrir og hann er heilsuspillandi,“ segir Helga. Hún tekur fram að sömu reglur gilda um lakkrísát eins og margt annað í lífinu sem okkur þykir gott: Ekki á hverjum degi og ekki í miklu magni.

Átak þjóðarinnar og allir hugi betur að heilsunni

Ýmislegt veldur háþrýsting og geta margar orsakir legið á bak við hann eins og til dæmis lífstílssjúkdómar. Allir geta byrjað fyrst á sjálfum sér og litið í eigin barm ef blóðþrýstingurinn er of hár eins og til dæmis að auka hreyfingu og bæta mataræði því flestir vilja komast hjá því að taka lyf ef komist verður hjá því. Fólki er bent á að halda sig í kjörþyngd og hreyfa sig reglulega, forðast saltan og feitan mat og borða sykur í hófi. „Allir þessir lífsstílsþættir skipta mestu máli í meðhöndlun á háum blóðþrýstingi,“ segir Helga og bætir við að ef fólk fer eftir lífsstílsráðgjöf getur það lækkað blóðþrýstinginn og mögulega komist hjá lyfjameðferð.

„Við þurfum samstillt átak þjóðarinnar, heilbrigðisþjónustunnar og einstaklinganna í að ná markmiðunum að ná blóðþrýstingnum niður,“ segir Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert