Höfðu nánast öll verið á Vogi

Af þeim sex einstaklingum á aldrinum 20-24 ára sem létust árið 2016 höfðu fimm verið  á Vogi, segir Þórarinn Tyrfingsson, læknir á Vogi. Magnús Ólason, læknir á Reykjalundi, biður lækna að ávísa ekki ópíóíðum til fólks sem glímir við þráláta bakverki.

Þetta er meðal þess sem kom fram á málstofunni „Fimmtíu skuggar ópíóíða“ hvað þurfa íslenskir læknar að vita um þá? á Læknadögum í Hörpu í morgun.

Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítalans, tekur undir með Magnúsi varðandi ópíóíða og bakverki því besta lækningin sé hreyfing. Hann segir mikla vakningu vera í að fara varlega í notkun slíkra lyfja sem verkjastillandi úrræðis í Bandaríkjunum og víðar. Ekki síst vegna faraldurs sem er í ótímabærum dauðsföllum af völdum lyfjafíknar.

Oft er hægt að nota aðrar aðferðir en lyfjagjöf við …
Oft er hægt að nota aðrar aðferðir en lyfjagjöf við þrálátum verkjum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

17% jarðarbúa neyta 92% alls morfíns í heiminum

Guðmundur Björnsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir sem starfar í verkjateymi Landspítalans, segir að á sama tíma megi heldur ekki gleyma því að 92% morfíns er neytt af 17% jarðarbúa og því sé aðeins 8% þess morfíns sem notað er í heiminum eftir fyrir hin 83% mannkyns. Víða í heiminum er skortur á ópíóíðum og jafnvel langt leiddir krabbameinssjúklingar hafa ekki aðgang að slíkum verkjalyfjum.

Aðeins lítill hluti sjúklinga sem þjáist af langvinnum verkjum hefur gagn af langvarandi ópíóíðameðferð. Því sé mikilvægt að fylgja vel eftir þessu sjúklingum með reglulegu endurmati. Guðmundur segir æskilegt að gera skriflegan samning við sjúkling varðandi meðferðina þar sem fram koma skyldur beggja, það er læknis og sjúklings, og hvað geti orðið til þess að meðferð skuli hætt.

En á sama tíma megi ekki stuðla að fælni því það getur valdið ónauðsynlegum þjáningum milljóna jarðarbúa. Um leið skaðar of frjálsleg notkun ópíóíða milljónir manna.

Að sögn Magnúsar gagnast fjölfagleg endurhæfing, þar sem blandað er saman líffræðilegri, sálrænni og félagslegri meðferð, best við þrálátum bakverkjum. Best sé að beita þverfaglegri nálgun þar sem unnið er í teymi og sjúklingurinn er hluti af teyminu.

Hann segir að þegar fólk kemur á Reykjalund sé það tekið af ópíóíðum og unnið með viðkomandi sjúkling á þverfaglegum nótum. Oft sé talað um mikinn kostnað við meðferð á Reykjalundi en raunin sé sú að kostnaðurinn er aðeins brot af því virði sem meðferðin skilar.

Kostnaður sem skilar sér margfalt til baka

Kostnaður við meðferð á Reykjalundi er margfalt minni heldur en þeirra sem ekki fá meðferð því flestir komast út á vinnumarkað að nýju. Skilar sér margfalt til baka, segir Magnús og bendir á rannsókn sem sýni að þetta skili sér áttfalt til baka til samfélagsins og það sama sem gildir annars staðar þar sem slíkri meðferð er beitt.

Hjalti Már segir að margt hafi breyst á undanförnum árum í verklagi þegar kemur að verkjastillingu. Notkunin á ópíóíðum hefur farið upp úr öllu valdi og það taki tíma frá því notkunin eykst og þar til dauðsföllum fer að fjölga vegna ofneyslu slíkra lyfja.  

Meðferð á Reykjalundi hefur hjálpað mjög mörgum sem glíma við …
Meðferð á Reykjalundi hefur hjálpað mjög mörgum sem glíma við þráláta verki. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hann segir að hér á landi hafi æ oftar þurft að nota naloxone en það er neyðarlyf sem notað er til að koma í veg fyrir að fólk deyi úr ofskömmtun af morfíni og öðrum ópíóíðalyfjum í sjúkrabílum sem og við komu á bráðamóttöku. Þórarinn tekur undir þetta og segir að hann hafi jafnvel þurft að gefa lyfið á bílastæðinu við Vog. 

Hjalti velti í erindi sínu upp þeirri spurningu hvort hægt sé að reka bráðamóttökur án ópíóða. „Ef við getum það þá ættu flestir að geta það í heilbrigðiskerfinu,“ segir hann og bendir á að á bráðamóttökunni í Fossvogi er verið að gera ýmislegt til þess að draga úr notkun slíkra lyfja. Svo sem með innleiðingu hláturgass, deyfingum og nálastungum. 

Margt hefur breyst í verklagi á bráðamóttökum vegna hættu á …
Margt hefur breyst í verklagi á bráðamóttökum vegna hættu á ópíóíðafíkn. mbl.is/Hjörtur

Þeir Hjalti og Magnús Ólason eru sammála um að hætta verði að grípa alltaf til verkjalyfja til að mynda við bakverkjum. Að ráðleggja fólki að hreyfa sig frekar en að leggjast upp í rúm með verkjalyf. Það sé álíka gáfulegt og að mála yfir rakaskemmdirnar á húsinu sínu – algjör skammtímalausn.

Síðan megi ekki gleyma því að það eru til fleiri verkjalyf en ópíóíðar. Til að mynda við verkjum vegna nýrnasteina, segir Hjalti. „Að hugsa út fyrir kassann,“ segir Hjalti en hann og fleiri þátttakendur í málstofunni eru sammála um þá hættu á fíkn sem fylgi notkun ópíóíða. 

Hátt hlutfall þeirra sem eru á aldrinum 20-34 ára sem …
Hátt hlutfall þeirra sem eru á aldrinum 20-34 ára sem deyja á hverju ári hafa verið sjúklingar á Vogi.

Þórarinn segir að hátt hlutfall þeirra sem deyja á ári hverju og eru yngri en 35 ára hafi verið sjúklingar á Vogi. Í nýjum tölum sem hann kynnti í málstofunni kemur fram að af þeim 13 sem létust árið 2016 á aldrinum 30-34 ára hafi átta verið sjúklingar á Vogi. Þetta gerir 61,5% en hlutfallið í aldurshópnum 20-24 ára er 83,3%. Af þeim 15 sem létust á aldrinum 35-39 ára voru 10 sjúklingar á Vogi eða 66,7%. 

Í samanburði við árin 2011-2015 er aukningin gríðarleg. Það er hversu hátt hlutfall ungmenna sem deyja hafa verið á Vogi. Í aldurshópnum 20-24 ára fer hlutfallið úr 25,6% í 83,3% árið 2016. Þetta eru sláandi tölur segir Þórarinn og minnir á að oft sé talað um hversu margir deyi árlega í bílslysum máli sínu til stuðnings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka