Réttmæt gagnrýni Landspítalans

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

„Ég held að menn læri af þessu og reyni að bæta sig en við þurfum alltaf að vera viðbúin því að hlutirnir gangi aldrei alveg 100% eins og við vildum hafa þá,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.

Í Facebook-færslu Landspítalans í fyrradag þar sem tilkynnt var um að allt starfsfólk skuli sjóða neysluvatn kom fram að spítalanum hafi ekki verið tilkynnt um málið fyrirfram. Stjórnendum spítalans hafi borist fregnirnar líkt og öðrum landsmönnum í fréttatíma RÚV.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Brugðust rétt við

„Þeirra gagnrýni er kannski alveg réttmæt,“ segir Þórólfur, sem telur þessa umræðu ekki vera aðalatriðið í málinu. „Auðvitað má laga og bæta samráðið og annað slíkt. Aðalatriðið í þessu máli er að Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur brugðust við samkvæmt þeim lagabókstaf sem um þau gilda,“ segir hann og bætir við að í heildina séð hafi ferlið gengið mjög hratt fyrir sig.

Sjálfur fékk hann fréttatilkynningu vegna málsins frá Heilbrigðiseftirlitinu og Veitum seint í fyrradag, skömmu áður en hún var birt á netinu og því hafi tíminn verið stuttur. „Það var ekki ráðrúm fyrir einn eða neinn að upplýsa allan þennan fjölda og allar þessar stofnanir sem hefðu þurft að vita af því.“

Veitur er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.
Veitur er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Aukin upplýsingagjöf Veitna

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, greindi frá því í Kastljósi í gær að höfuðborgarbúar geti brátt leitað upplýsinga á vefsíðu Veitna um niðurstöður vikulegra sýna sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur úr dreifikerfinu.

Aðspurð hvort það hafi verið í samræmi við verkferla Veitna að Landspítalinn hafi ekki fengið að vita fyrr um jarðvegsgerlana í neysluvatninu sagði hún allt ferlið hafa verið í samræmi við verkferla.

„Hins vegar má spyrja sig varðandi þetta. Við höfum upplýsingar og viljum koma þeim á framfæri. Það sem gerist í þessu er bara hvernig þeim er komið á framfæri. Við upplýsum alla á sama tíma í rauninni,“ sagði hún.

Einnig viðurkenndi hún að Veitur hefðu mátt hafa samráð við fleiri, eins og sóttvarnalækni og þá sérfræðinga sem funduðu með honum í gærmorgun og lögðu mat á að þessi fjöldi jarðvegsgerla væri hættulaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka