Valgarð Már Valgarðsson er fyrrum starfsmaður eigin viðskipta Glitnis. Hann er ákærður fyrir markaðsmisnotkun, rétt eins og Jónas Guðmundsson og Pétur Jónasson, sem störfuðu í sömu deild innan bankans.
Valgarð var ráðinn til Glitnis haustið 2007 og var að eigin sögn fenginn sérstaklega til bankans til að byggja upp viðskipti með erlend hlutabréf, en áður hafði hann sinnt sambærilegu hlutverki hjá Kaupþing. Hann starfaði hjá Glitni í tæpa tólf mánuði, eða fram til haustsins 2008.
„Mitt aðalstarf var stýring erlendra hlutabréfa, starf sem mér fannst vera spennandi,“ sagði Valgarð við aðalmeðferð málsins nú eftir hádegi. Hann kom þó einnig að nokkru leyti að viðskiptum deildar eigin viðskipta Glitnis með hlutabréf í bankanum sjálfum og fyrir það er hann ákærður, rétt eins og Jónas og Pétur.
Hann segist einfaldlega hafa gengið inn í þá framkvæmd, en hann hafi ekki ákveðið stefnuna né sé hann að réttlæta hana. Hann taldi sig þó aldrei hafa farið út fyrir neinar heimildir er hann stundaði viðskiptin, frekar en aðra starfsmenn deildar eigin viðskipta.
„Glitnir hafði 1200 starfsmenn og meðal annars starfsmenn sem fylgdust með viðskiptum eigin viðskipta og ég taldi mig og okkur aldrei fara út fyrir þær heimildir,“ sagði Valgarð Már.
Hann tók það fram í máli sínu að tíminn í þessu máli hefði liðið alveg óskaplega og að Valgarð væri ekki lengur sami 26-27 ára gamli drengurinn og hann var þegar hann starfaði í deild eigin viðskipta hjá Glitni. Árið 2008 hafi hann kynnst konunni sinni og eignast fjögur börn síðan þá, sem sýni kannski hversu langan tíma málið hefur tekið.
Í svörum Valgarðs við spurningum Björns Þorvaldssonar saksóknara kom fram að viðskipti eigin viðskipta Glitnis með bréf bankans hafi að hans mati verið sambærileg við viðskipti annarra banka með sín eigin bréf.
„Ég held að það hafi verið alkunna á markaði að bankar hafi átt í viðskiptum með eigin bréf. Með því að auka dýpt markaðarins eru bréfin seljanlegri, eða hægt að kaupa meira. Það er sú framkvæmd sem var viðhöfð,“ sagði Valgarð.
Hann lagði þó áherslu á að hann sjálfur hafi ekki átt dagleg viðskipti með eigin bréf bankans.
„Ég var ekki að eiga viðskipti á hverjum degi með eigin hlutabréf,“ og ítrekaði að viðskipti deildar eigin viðskipta hefðu verið innan þeirra heimilda sem settar voru og ekki hafi verið gerðar neinar athugasemdir við fyrirkomulag þeirra.
„Meira að segja færustu matsfyrirtæki heimsins voru að gefa bönkunum AAA í einkunn,“ sagði Valgarð.
Um það hversu hátt hlutfall viðskipta eigin viðskipta Glitnis með bréf í bankanum fór fram í lokunaruppboðum í Kauphöllinni sagði Valgarð að margt annað gæti haft áhrif á upphafsgengi morgundagsins en lokastaða dagsins.
„Margir utanaðkomandi þættir geta haft áhrif, erlendar fréttir, greiningar, hegðun Seðlabanka Bandaríkjanna, það eru milljón hlutir og ég held að það séu engar sérstakar ástæður fyrir því að menn hafi verið að einbeita sér sérstaklega að lokunartilboðum,“ sagði Valgarð.
Saksóknari birti hljóðritun af símtali Valgarðs og þáverandi regluvarðar Glitnis. Þá hafði regluvörður tekið eftir því að eignarhlutur Glitnis í eigin bréfum væri kominn yfir 5%.
Valgarð svaraði regluverði á þá leið að verið væri að að reyna að finna „pluggera“ til að leysa úr því.
Spurður út í hvað „pluggerar“ væru, sagðist Valgarð að mögulega hefðu það verið áhugasamir aðilar á markaði.
„Við erum bara algjörlega í varðhaldi sko,“ sagði Valgarð svo við regluvörð bankans í sama símtali.
Regluvörður svarar: „Verður ekki bara að flagga?“
Valgarð svarar: „Jú, við verðum þá bara að gera það, ég meina það þarf samt að komast einhverri niðurstöðu bara með Lalla líka,“ og vísar þar til Lárusar Welding, forstjóra Glitnis.
Spurður út í þetta sérstaklega, sagði Valgarð að hann hefði verið að „slá um sig“ í samtali við regluvörðinn, með því að nefna bankastjórann á nafn.
Hann hefði ekki átt í neinum samskiptum við Lárus nema á fyrstu dögum sínum innan bankans, þegar Lárus tók í hendina á honum og bauð hann velkominn til starfa.