Uppbygging á Kringlureit á næstu árum

Samkvæmt vinningstillögunni verður byggt upp meðfram Kringlumýrarbrautinni og Miklubrautinni sem …
Samkvæmt vinningstillögunni verður byggt upp meðfram Kringlumýrarbrautinni og Miklubrautinni sem og á horninu við Verzlunarskólann. Dómnefndin tók hins vegar ekki vel í hugmyndir um aukna byggð ofan á Kringlunni sjálfri og taldi torgið austan við Hús verslunarinnar of stórt. Teikning/Kanon arkitektar

Í dag skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson forstjóri Reita undir viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Reita um uppbyggingu á Kringlureitnum og verður það umfangsmesta uppbygging á svæðinu frá því verslunarmiðstöðin Kringlan var opnuð árið 1987. Mbl.is sagði frá áformunum um uppbygginguna í nóvember.

Þá verður starfshópur myndaður til að vinna að verkefninu og verkstýra vinnu við gerð ramma- og deiliskipulagsáætlana sem unnar verða í beinu framhaldi af hugmyndasamkeppni um Kringlusvæðið sem haldin var í fyrra. Verða fulltrúar Reita, skipulagsfulltrúa Reykjavíkur og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem munu skipa hópinn.

Samhliða verður komið á fót vinnuhóp sem mun vinna hið eiginlega rammaskipulag og verður hann skipaður fulltrúum Kanon arkitekta, vinningshafa í hugmyndasamkeppninni um skipulag svæðisins, fulltrúa frá THG arkitektum,  fulltrúa skipulagsfulltrúa, tæknilegum ráðgjöfum, Reitum og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg.

Gert er ráð fyrir að drög að rammaskipulagi liggi fyrir um mitt ár 2018 og að fyrsti deiliskipulagsáfangi verði auglýstur til kynningar fyrir árslok 2018, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Meðal þess sem núverandi vinningstillaga gerir ráð fyrir er mikil uppbygging og þétting á reitnum og þá verði borgarlínustöðvar við reitinn. Í miðju svæðisins verður svo stórt almenningsrými sem kallast Kringlustétt. Hamrahlíð er framlengd inn á svæðið og nýr inngangur í Kringluna hafður í öndvegi við enda götunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert