Bæta við borholum í Heiðmörk

Vatnsból Reykvíkinga eru í Heiðmörk.
Vatnsból Reykvíkinga eru í Heiðmörk. mbl.is/Sigurður Bogi

Veitur vonast til að þrjár nýjar borholur í Vatnsendakrikum í Heiðmörk verði komnar í gagnið í vor.

Svæðið stendur töluvert hærra í landinu en aðrar borholur. „Þetta er mjög góð viðbót,“ segir Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Veitna, og telur að minni líkur verði á auknu magni jarðvegsgerla þar.

Tvær borholur í Vatnsendakrika eru þegar í rekstri. Beðið er eftir að vetri ljúki og að umhverfismat verði samþykkt til að hægt verði að virkja hinar þrjár holurnar en búið er að bora þær. 

„Samkvæmt tölum sem ég hef frá 2009 hefur aldrei mælst aukið gerlamagn í holunum sem þar eru vegna hlákutíðar. Þessar fimm holur í Vatnsendakrika munu nýtast mjög vel þegar stöðva þarf vatnstöku á öðrum svæðum."

Ólöf segir erfitt að standa í framkvæmdum á svæðinu vegna þess að um sé að ræða brunnsvæði. „Þetta gæti tekið svolítinn tíma en við erum að vonast til að þetta verði í vor.“

Kort af vatnstökusvæði Veitna í Heiðmörk.
Kort af vatnstökusvæði Veitna í Heiðmörk. Kort/Veitur

Vilja vernda svæðið 

Alls eru borholur Veitna tuttugu talsins. Framkvæmdirnar við borholurnar í Vatnsendakrikum hafa tafist af ýmsum orsökum í gegnum árin. Hún nefnir bankahrunið og slæma fjárhagsstöðu Orkuveitunnar í kjölfarið sem dæmi, auk sem ágreiningur hafi verið um landamörk. 

„Núna er staðan sú að við viljum ekki að það sé verið að vinna á þessu viðkvæma svæði á meðan landið er svona blautt. Við viljum vernda það eins og við getum og erum að vanda okkur mikið við þetta.“

Borholur Veitna eru ekki allar í notkun á sama tíma, enda misviðkvæmar fyrir ofanvatni sem ber gerlana. Fimm holum í Gvendarbrunnum í Heiðmörk var lokað í október en þær verða opnaðar aftur í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka