Fjárveiting tryggð til ILS-aðflugsbúnaðar

Akureyrarflugvöllur
Akureyrarflugvöllur mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þörf er á fullkomnari aðflugsbúnaði á Akureyrarflugvelli ef hann á að geta þjónað reglulegu millilandaflugi eins og heimamenn vilja. Þá er þörf á því að stækka flugstöðina og flughlaðið.

Þetta kom fram í viðtölum við Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, og Hjördísi Þórhallsdóttur flugvallarstjóra í vikunni.

Tilefnið var að flugvél ferðaskrifstofunnar Super Break frá Edinborg með um 200 farþega um borð varð að hætta við lendingu vegna veðurs, en dimmt él gerði þegar vélin átti að lenda. Lent var í Keflavík og fóru farþegar norður með rútu.

Þá voru 185 Bretar sem komið höfðu með öðru flugi ferðaskrifstofunnar strandaglópar á Akureyri um tíma vegna flugaðstæðna. Super Break hyggst fljúga reglulega til Akureyrar á næstunni, en ekki er hægt að útiloka að veður muni áfram hamla einstaka flugi yfir vetrartímann, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Fyrir norðan segja menn að nákvæmnisaðflugsbúnaður (ILS – Instrumental Landing System) fyrir aðflug úr norðri hefði sennilega getað tryggt eðlilega lendingu bresku vélarinnar. Slíkur búnaður kostar 70 til 100 milljónir króna. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Circle Air, fullyrti á Facebook að stjórnvöld hefðu ekki sýnt áhuga á því að viðhalda eða byggja upp innviði flugs á Íslandi, aðra en Keflavík, á undanförnum árum. Um það vitnaði óbreytt fjárhæð til málaflokksins frá 2007, sem þýddi raunlækkun upp á um 35%.

„Isavia hefur lagt það til við stjórnvöld að ILS-aðflugsbúnaði verði komið fyrir á Akureyrarflugvelli. Það er til meðferðar hjá samgönguráðuneytinu. Mögulega væri hægt að koma fyrir eldri búnaði á vellinum sem er í eigu Isavia en ekki í notkun en það er háð samþykki stjórnvalda. Isavia telur þó ráðlegast að setja upp nýjan búnað,“ sagði Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Hvað flugstöðina á Akureyri varðar er ljóst að með fjölgun ferðamanna sem fara um Akureyrarflugvöll, m.a. með bresku ferðaskrifstofunni Super Break og mögulega öðrum erlendum aðilum, er hún í núverandi mynd ekki nógu stór til að taka á móti þeim fjölda fólks. Vilji Isavia er að byggt verði við flugstöðina en það er ríkisvaldsins, sem eiganda hennar og flugvallarins, að taka ákvörðun um hvort og þá hvernig það verði gert.“

 ILS á fjárlögum 2018

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður, sem starfaði sem flugumferðarstjóri á Akureyri í aldarfjórðung, segist lengi hafa barist fyrir ILS-aðflutningsbúnaði. Hann sagði að það væri sinn skilningur að fjárveiting til þess væri tryggð í fjárlögum sem samþykkt voru fyrir áramót. „Ég lít svo á að þetta mál sé í góðu ferli núna miðað við þau minnisblöð sem ég er með frá ráðuneytinu í tengslum við fjárlagagerðina,“ sagði hann í gær.

Njáll Trausti sagði að ljóst væri að flugstöðin sjálf væri orðin of lítil og mætti sjá þess merki á annatímum þegar innanlandsflug eitt ætti í hlut. Þar þyrftu að verða úrbætur og einnig þyrfti að stækka flughlaðið. Aðflutningsbúnaðurinn hefði forgang en síðan þyrfti að snúa sér að þessum úrbótum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert