Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður tveggja einstaklinga í svokölluðu LÖKE-máli, segir að niðurstaða setts ríkissaksóknara í máli mannanna tveggja gegn Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, fyrrverandi aðallögfræðingi hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og núverandi starfsmanni hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, sé í raun sú besta sem búast mátti við fyrir skjólstæðinga sína. Þar sé staðfest að Alda hafi aðallega verið ábyrg á þeim ágöllum sem voru á rannsókninni, þó henni sé ekki refsað fyrir það.
Í yfirlýsingu gagnrýnir Garðar harðlega meðferð kærunnar hjá embætti ríkissaksóknara og það sem hann segir „hið meingallaða kerfi um eftirlit með störfum lögreglu og saksóknara sem heldur áfram að bregðast og halda verndarvæng yfir valdhöfunum.“ Segir hann eftirlit með störfum handahafa lögreglu- og ákæruvalds virðast vera upp á punt og ekki sé hægt að draga neinn til ábyrgðar ef yfirmenn stjórnsýslunnar vilji það ekki.
Vísar hann til þess að málið hafi ekki verið fyrnt þegar mennirnir hafi fyrst tilkynnt um meint brot Öldu til embættis ríkissaksóknara eða þegar þrýst hafi verið á embættið í meira en ár að hefja rannsókn. Þá hafi það heldur ekki verið fyrnt þegar lagðar voru fram formlegar kærur eftir að LÖKE-sakamálinu lauk.
„En þar sem ríkissaksóknari ákvað að gera ekkert frá árinu 2014 og fela svo formlegu kærurnar í skúffu fyrsta hálfa árið eftir að þær bárust, þá voru brotin fyrir einhverja skrítna tilviljun fyrnd þegar rannsókn loks hófst,“ segir Garðar í yfirlýsingunni.
Segir Garðar að mennirnir hafi verið sviptir æru sinni og starfsheiðri að ósekju vorið 2014, en engum verði refsað fyrir það. „Það er aldrei neinum refsað þegar þegar yfirmenn lögreglu og saksóknara brjóta af sér,“ segir hann.
Þá segist Garðar vona að núverandi vinnuveitandi muni aldrei leyfa Öldu að fara með lögregluvald, „svo hún geti ekki leikið sér í ólöglegum spæjaraleik með hörmulegum afleiðingum,“ eins og orðað er í yfirlýsingunni.