Staðfestir niðurfellingu LÖKE-máls

Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson, annar lögreglumannanna sem …
Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson, annar lögreglumannanna sem kærðu Öldu. Samsett mynd

Bogi Nilsson, settur ríkissaksóknari, hefur staðfest ákvörðun setts héraðssaksóknara í máli tveggja manna gegn Öldu Hrönn Jóhannesdóttur, fyrrverandi aðallögfræðingi hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og núverandi starfsmanni hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.  Kæra mannanna tengist svokölluðu LÖKE-máli sem þeir höfðu verið ákærðir í. Kærðu mennirnir Öldu fyrir að hafa misbeitt valdi í starfi sínu hjá lögreglunni á Suðurnesjum við rannsókn málsins.

Í niðurstöðu sinni segir Bogi að hvorki lögreglustjórinn á Suðurnesjum né embætti ríkissaksóknara, sem Alda hafði leitað samráðs við í málinu, hefðu beint málinu í farveg til samræmis við ákvæði lögreglulaga. Þó segir Bogi í niðurstöðu sinni að ekki verði sé að rannsókn málsins hafi verið óeðlileg eða í andstöðu við lagafyrirmæli, enda háð að höfðu samráði við embætti ríkissaksóknara eða samkvæmt fyrirmælum embættisins.

Tekið er fram að annmarkar hafi verið í upphafi rannsóknarinnar í framhaldi af móttöku ábendingar um háttsemi lögreglumannanna. Þá hafi einnig verið annmarkar við móttöku rannsóknargagna. Niðurstaða Boga er hins vegar að þeir annmarkar sem Alda bar aðallega ábyrgð á þyki ekki slíkir að það varði brot á almennum hegningarlögum.

Þá er sérstaklega tekið fram að rannsókn á hendur Öldu hafi ekki hafist fyrr en eftir að tvö ár voru liðin frá því að rannsókn Öldu í málinu, sem kærendur telja vera refsiverða, lauk. Samkvæmt lögum fyrnast sakir á meintum brotum á tveimur árum og væru þau einnig fyrnd ef háttsemi Öldu hefði varðað við lög.

Á þessum rökum staðfestir Bogi niðurstöðu setts héraðssaksóknara í málinu um að fella það niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert