Aftur snúið frá Akureyri til Keflavíkur

Boeing 737-800 vél frá Enter Air brunar framhjá flughlaðinu á …
Boeing 737-800 vél frá Enter Air brunar framhjá flughlaðinu á Akureyrarflugvelli eftir að hún lenti á föstudaginn í síðustu viku. Síðan þá hefur flugfélagið ekki getað lent á vellinum vegna veðurs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Boeing 737 vél Enter Air sem átti að lenda á Akureyrarflugvelli núna um klukkan 13 í dag hefur verið snúið til Keflavíkur, en þetta er önnur flugferðin af þremur hjá flugfélaginu á viku sem endar í Keflavík í stað Akureyrar.

Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, staðfestir í samtali við mbl.is að flugstjóri vélarinnar hafi óskað eftir heimild til að halda til Keflavíkur vegna erfiðleika við að lenda, en ástæðan er mjög slæmt skyggni. Segir Hjördís að það hafi byrjað að snjóa mikið fyrir um 40 mínútum og skyggnið spillst. Aftur á móti sé lítill sem enginn vindur og búið að moka brautina.

Nokkuð hefur verið rætt um aðflugsmál á Akureyrarflugvelli, en vél félagsins þurfti í byrjun vikunnar að hætta við lendingu í svipuðum veðurskilyrðum. Voru þá um 200 farþegar í flugvélinni, en að sögn Hjördísar eru þeir 189 núna.

Meðal annars hefur Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsstofu Norðurlands, rætt um málið, en hún sagði að íbúar Norðurlands væru að missa af ferðamönnum vegna þess að ekki væri veitt fjárheimild til að segja nýjan blindflugsbúnað (ILS – Instrumental landing system) upp á vellinum.

Þá sendi sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar frá sér ályktun um að tryggja þyrfti öruggt aðflug á vellinum.

Hjördís segir við mbl.is að við þessi skilyrði hefði slíkur blindflugsbúnaður aðstoðað mikið við lendingu. „Við viljum setja slíkan búnað upp, en það vantar fjármagn frá ríkinu,“ segir hún, en búnaðurinn kostar um 70-100 milljónir.

Fylgjast má með flugi vélarinnar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert