Ekki samið um fráfall sakargifta

Björn Þorvaldsson saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis.
Björn Þorvaldsson saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Athygli hefur vakið að Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi yfirmaður deildar eigin viðskipta hjá Glitni, var ekki ákærður í markaðsmisnotkunarmáli bankans, en þrír starfsmenn eigin viðskipta eru ákærðir í málinu.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuborgarsvæðinu, bar vitni fyrir dómi í dag og var spurður út í samskipti lögreglu við Magnús Pálma af verjanda Jóhannesar Baldurssonar, Reimari Péturssyni.

Grímur greindi frá því að Magnúsi hefði mátt vera ljóst er hann gaf framburð sinn að hann yrði ekki ákærður í þessu máli, frekar en í Stím-málinu. Legið hefði fyrir að ef hann myndi breyta framburði sínum í Stím-málinu á þá vegu sem hann hafði lýst sig viljugan að gera á fundum með lögreglu, yrði fallið frá saksókn á hendur honum.

„Meðal annars held ég að þetta mál hafi verið undir,“ sagði Grímur.

Hinsvegar kom fram í svörum Gríms við spurningum Björns Þorvaldssonar saksóknara að ekki hefði sérstaklega verið samið við Magnús Pálma um fráfall sakargifta í þessu máli.

Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi yfirmaður eigin viðskipta Glitnis, er ekki …
Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi yfirmaður eigin viðskipta Glitnis, er ekki ákærður í þessu máli. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Spurði Björn Grím einnig að því hvort framburður Magnúsar Pálma við rannsóknina hefði mögulega litast af því að hann hefði talið svo vera.

Þá greip Arngrímur Ísberg, dómsformaður inn í og sagði við Björn saksóknara að hann gæti nú ekki beðið Grím sem vitni um að leggja mat á það hvort framburður Magnúsar væri litaður af því á einhvern hátt.

Fullyrti að lögregla hefði hlustað á símtöl sakbornings og verjanda

Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar, spurði Grím út í misbresti sem virðast hafa orðið á eyðingu upptakna af símtölum á milli hans og skjólstæðings síns. Grímur viðurkenndi að þeim hefði verið eytt of seint, en ákvæði laga segir til um að þeim skuli eytt jafnóðum.

Reimar fullyrti að símtöl á milli sín og Jóhannesar hefðu verið hlustuð.

„Ég veit ekki til þess að það hafi verið hlustað á símtöl á milli verjenda og sakborninga. Þau eru tekin upp, en ég hygg að þau hafi ekki verið hlustuð,“ sagði Grímur við því.

Reimar Pétursson, hér fyrir miðri mynd, fullyrti að símtöl sín …
Reimar Pétursson, hér fyrir miðri mynd, fullyrti að símtöl sín við skjólstæðing hefðu verið hlustuð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sannfærður um að Glitni hafi verið viðskiptavaki

Bjarni Ármannsson, sem var bankastjóri Glitnis fram til ársins 2007, bar vitni og sagðist aldrei almennilega hafa skilið þá umræðu að Glitnir hefði ekki verið með formlega viðskiptavakt á viðskiptum með eigin hlutabréf.

„Ég hef alltaf litið á það þannig að bankinn hafi verið með viðskiptavakt á eigin hlutum,“ sagði Bjarni, sem í aprílmánuði 2007 sendi FME bréf í apríl árið 2007 þess efnis að Glitnir væri með virka viðskiptavakt með sínum eigin hlutabréfum.

Hann sagðist ekki minnast þess að FME hefði gert athugasemdir við þá tilkynningu, né nokkurra viðskipta Glitnis með sín eigin bréf.

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar Welding, spurði Bjarna að því hvort viðskipti bankans með eigin bréf hefðu verið rædd á því tímabili er Bjarni var að koma Lárusi, nýjum bankastjóra, inn í starfið. Bjarna rak ekki minni til þess.

Dagskrá lauk á undan áætlun

Annars gengu hlutirnir hratt fyrir sig í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og dagskránni lauk klukkutíma á undan áætlun. Fyrir hádegið myndaðist einnig eyða í dagskránni sem var nýtt til þess að fá Jóhannes Baldursson til þess að bera vitni um annan og þriðja lið ákærunnar, sem snúa að Lárusi Welding.

Saksóknari spurði Jóhannes hvernig á því stæði að ekki hefðu verið gerðir hefðbundnir kaupréttarsamningar við starfsmenn bankans, í stað þeirra útlána til hlutabréfakaupa sem málið fjallar að hluta um.

Jóhannes sagðist ekki vita það, en minntist þó á að Þor­steinn Már Baldvinsson, nýr stjórnarformaður Glitnis, hefði verið gagnrýninn á kaupréttarsamninga á þessum tíma.

Fyrst í morgun hafði Ingi Rafnar Júlíusson borið vitni, fyrstur þeirra fjórtán starfsmanna Glitnis sem fengu há lán til hlutabréfakaupa í bankanum dagana 15. og 16. maí 2008. Ingi sagði dóminum að starfsmenn bankans á þessum tíma hefðu haft mikla trú á bank­an­um og hefðu „suðað“ um að fá að kaupa hlutabréf í honum.

Á þessum tíma hafi verið „kúltúr“ fyrir því innan íslenskra fjármálastofnana að starfsmenn ættu eignarhluti og gætu notið þess persónulega ef það gengi vel. Hann telur að bankinn hafi boðið starfsmönnum að kaupa hlutabréf til þess að festa þá í sessi á erfiðum tímum og tengjast fyrirtækinu sterkari böndum.

Vitnaleiðslum í markaðsmisnotkunamáli Glitnis verður fram haldið á mánudagsmorgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert