Vill afsökunarbeiðni vegna dauða konu sinnar

Shelagh Donovan (önnur frá vinstri) ásamt fjölskyldu sinni.
Shelagh Donovan (önnur frá vinstri) ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Michael Boyd

Jökulsárlónsmálið er komið á enda í réttarkerfinu eftir tæplega tveggja og hálfs árs málsmeðferð en ábyrgð fyrirtækisins, sem á og rekur bátinn, virðist lítil sem engin. Þetta segir Michael Boyd sem missti eiginkonu sína í hörmulegu slysi við lónið í ágúst árið 2015. Hann hefur enga afsökunarbeiðni fengið vegna slyssins.

Í síðustu viku var maður á þrítugsaldri dæmdur fyrir manndráp af gáleysi en fyrirtækið Jökulsárlón ehf hefur ekki fengið neina refsingu. Boyd segir dóminn of vægan en telur að málið sé komið á enda í réttarkerfinu. 

Fyrirtækið beri ábyrgð

Hann segir lögfræðinga sína á Íslandi hafa útskýrt að ekki væri hægt að ákæra fyrirtækið fyrir sinn þátt í málinu þar sem þeir teldu það draga úr líkum á því að ökumaðurinn yrði sakfelldur. „Það þykir mér veikburða röksemdarfærsla en það í höndum saksóknara að ákveða hver ákæran skuli vera.“

Honum þykir miður að enn hafi fyrirtækið ekki fengið neina refsingu vegna málsins. Boyd vonar að fyrirtækið hafi betrumbætt öryggi starfshátta sinna og engin önnur fjölskylda þurfi í framtíðinni að upplifa sömu sorg og þau hafa gert vegna slyssins.

Í skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa kom fram að maður­inn hafði ekki rétt­indi til að stýra bátn­um. Þar seg­ir að bakk­mynda­vél, sem er í öll­um slík­um bát­um sem sigla á Jök­uls­ár­lóni, hafi verið biluð og svo hafi verið um nokk­urt skeið. Þá hafi hvorki skip­stjór­inn né ann­ar starfsmaður gengið úr skugga um að hættu­laust væri að aka aft­ur á bak. Lögmaður mannsins hefur hins vegar bent á að fyrirtækið hafi sagt réttindi mannsins gild, en hægt er að fá undanþágu á báta við sérstakar aðstæður.

Shelagh Donovan var háttsettur endurskoðandi og meðeigandi að alþjóðlega fyrirtækinu …
Shelagh Donovan var háttsettur endurskoðandi og meðeigandi að alþjóðlega fyrirtækinu Ernst & Yong. Ljósmynd/Michael Boyd

Hvað kostar að biðjast afsökunar?

Shelagh Donovan hefði orðið 62 ára þann 13 febrúar n.k. og þau hjónin hefðu átt 29 ára brúðkaupsafmæli 7. janúar. Það situr í Boyd að hafa ekki fengið afsökunarbeiðni frá neinum vegna dauða konu sinnar.

„Eitt sem að angrar mig, það er að við höfum aldrei fengið afsökunarbeiðni frá neinum sem var viðriðinn slysið. Ökumaðurinn, þau sem voru í vinnu þennan dag, eigendur fyrirtækisins. Hvað myndi það kosta þau að biðja mig og fjölskyldu okkar afsökunar á þeim atburðum sem ollu dauða konu minnar?“ segir Boyd og bætir við að hann hafi ekki trú á því að verði einhvertímann beðinn afsökunar.

Stofnaður minningasjóður í Kanada

Shelagh Donovan var háttsettur endurskoðandi og meðeigandi að alþjóðlega fyrirtækinu Ernst & Yong. Samstarfsfólk hennar á skrifstofunni í Toronto báðu fjölskylduna um leyfi til þess að stofa sjóð í minningu hennar í skólanum sem Shelagh lauk gráðu sinni í viðskiptafræði frá.

Skemmst er að segja frá því að rúmar 62 milljónir íslenskra króna hefur verið safnað í Shelagh Donovan Memorial Award-sjóðinn sem mun veita tveimur kvenkyns nemendum rúmlega 800.000 króna styrk á ári hverju í Richard Ivey School of Business. „Þetta er yndisleg leið til þess að heiðra minningu Shelagh,“ segir Boyd að lokum.

Hjólabátur við Jökulsárlón.
Hjólabátur við Jökulsárlón. mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert