Íslenskur karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í Malaga á Spáni grunaður um alvarlegt ofbeldisbrot gegn þrítugri eiginkonu sinni sem einnig er íslensk. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er maðurinn grunaður um að eiga þátt í því að eiginkona hans féll fram af svölum á heimili þeirra. Blaðið fékk staðfest hjá utanríkisráðuneytinu að Íslendingur væri í haldi en ekki voru veittar frekari upplýsingar.
Atvikið átti sér stað fyrr í vikunni en hjónin eru nýlega flutt til Spánar og eru búsett þar ásamt ungri dóttur sinni.