„Ég var með allar mínar eignir undir í þessum hlutabréfum í bankanum, sem mér fannst vera mjög góð ráðstöfun á þessum tíma, enda hafði ég trú á því sem var að gerast í þessu fyrirtæki,“ sagði Ingi Rafnar Júlíusson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Glitnis, í vitnisburði sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Hann er einn fjórtán starfsmanna Glitnis sem fengu lán frá bankanum í maí árið 2008 til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum og sá fyrsti þeirra sem ber vitni við aðalmeðferð markaðsmisnotkunarmáls Glitnis.
Ingi sagðist ekki muna nákvæmlega hvernig þau viðskipti komu til, en grunar að hann hafi fyrst heyrt af þeim í gegnum sinn næsta yfirmann, Jóhannes Baldursson, sem er ákærður í málinu. Ingi sagði að hann sjálfur hefði ekki tekið þátt í því að stofna einkahlutafélagið AB 158, sem keypti 30 milljón hluti í Glitni banka fyrir 519 milljónir króna þann 16. maí árið 2008.
Alls voru 6,77 milljarðar lánaðir til 14 einkahlutafélaga í eigu starfsmanna Glitnis í 15. og 16. maí 2008 og fyrir þessi útlán er Lárus Welding, þá forstjóri Glitnis, ákærður í tveimur liðum, fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik.
Ingi sagði dóminum að starfsmenn bankans á þessum tíma hefðu haft mikla trú á því bankanum og hefðu „suðað“ um að fá að kaupa hlutabréf í honum. Á þessum tíma hafi verið „kúltúr“ fyrir því innan íslenskra fjármálastofnana að starfsmenn ættu eignarhluti og gætu notið þess persónulega ef það gengi vel. Hann telur að bankinn hafi boðið starfsmönnum að kaupa hlutabréf til þess að festa þá í sessi á erfiðum tímum og tengjast fyrirtækinu sterkari böndum.
Hann sagðist ekki muna eftir neinum samningaviðræðum um lánið sem félag hans fékk, hvorki um upphæð lánsins né um vaxtakjör eða annað. Félagið AB 158 átti engar eignir aðrar en hlutabréfin í Glitni, hafði engar tekjur og Ingi man ekki til þess að hafa verið beðinn um neinar tryggingar. Það hefur farið í gegnum gjaldþrotaskipti og lánið sem Glitnir veitti félaginu fékkst ekki greitt til baka.
Björn Þorvaldsson saksóknari bar nokkur símtöl og tölvupósta undir Inga Rafnar. Í einum tölvupóstinum, sem Jóhannes Baldursson sendi Inga Rafnari, sagði Jóhannes: „nú þarf ég að fá pepp frá þér“. Björn spurði hvað „pepp“ þýddi í þessum samskiptum og þá sagðist Ingi ekki geta sagt nákvæmlega til um það.
„Það er merkilegt með þetta lingó, þið virðist ekki skilja þetta sjálfir eftir á,“ sagði Björn þá og Ingi svaraði því til að sum þessara „kommenta eldist ekki vel.
Ingi sagði að þegar hann horfði á þessi samtöl eftir á minntu þau einna helst á samskipti manna sem væru saman í handbolta- eða fótboltaliði.
„Mér detta bara í hug einhver komment frá handboltamanni eftir leik, svona í baksýnisspeglinum,“ sagði Ingi.
Í símtali Inga við Elmar Svavarsson, samstarfsmann sinn, spurði Ingi hvort þeir ættu ekki að reyna að „tosa aðeins í glitni, upp í 20,“ og Elmar samsinnti því.
„Æstu Jónas upp í það,“ sagði Ingi þá og meinti Jónas Guðmundsson, starfsmann deildar eigin viðskipta sem er ákærður fyrir að framkvæma markaðsmisnotkun.
Aðspurður um hvað það að „æsa Jónas“ upp þýði í þessu samhengi, sagði Ingi að hann telji að þeir hafi ekki „verið að stefna að neinu.“ Þetta sé bara eitthvað sem gengið hafi manna á milli.
„Ég hugsa að við höfum átt mörgþúsund símtöl þar sem við vorum tala að æsa einhvern upp í að eiga einhver viðskipti,“ sagði Ingi Rafnar.