Stór verkefni í millilandaflugi eru í hættu ef ekki fæst vilyrði fyrir svokölluðum blindbúnaði (ILS) á Akureyrarflugvöll, innan mánaðar. Þetta segir Arnheiður Jónasdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Hún getur ekki gefið upp hvaða fyrirtæki eiga í hlut annað en að um millilandaflug er að ræða.
Búnaðinum verði að koma fyrir á flugvellinum sem allra fyrst ætli Akureyrarflugvöllur að skipa stærri sess í millilandaflugi á Íslandi.
Arnheiður leyfir sér þó ekki að vera bjartsýn á að honum verði komið upp á árinu, þrátt fyrir að Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður, sem starfaði sem flugumferðarstjóri á Akureyri í aldarfjórðung, hafi sagt það sinn skilning að fjárveitingin væri tryggð í nýsamþykktum fjárlögum. „Við höfum ekki fengið neina staðfestingu á því,“ segir Arnheiður.
Flugvél Enter Air sem lenda átti á Akureyrarflugvelli klukkan 13 í dag varð frá að hverfa vegna veðurs, en hún lenti í Keflavík stuttu síðar. Þetta er í annað sinn á einni viku sem vél félagsins getur ekki lent á Akureyrarflugvelli vegna veðurs. Enter Air er eina erlenda flugfélagið sem flýgur regluleg millilandaflug til Akureyrar, en nokkuð er um leiguflug af vellinum. „Þeir eru að brjóta ísinn fyrir þetta flug.“
Búnaðurinn sem um ræðir heitir á ensku Instrumental Landing System, með skammstöfunina ILS. „Þetta er búnaður sem gerir þotum kleift að lenda við verri skilyrði,“ segir Arnheiður. Núna þurfi þotur frá að hverfa ef skyggni er minna en 1.250 fet, en með búnaðinum þurfi þær ekki nema 350 feta skyggni til lendingar. „Þá stilla vélarnar sig inn á geislann frá þessum ILS-búnaði og fylgja honum.“
Búnaðurinn er til staðar fyrir aðflug úr suðri, en ekki norðri. Há fjöll byrgja sýn í aðkomunni úr suðri og hentar sú leið ekki þotum, að sögn Arnheiðar. Einnig er flugvöllurinn búinn radar-búnaði, sem er tækni sem notuð er í sjúkra- og innanlandsflugi. Íslenskir flugmenn sem þjálfaðir eru til að lenda fyrir norðan geta lent með þeim búnaði, en það getur reynst óvönum flugmönnum vandasamt. Það skýri mikilvægi ILS-búnaðarins fyrir framgang millilandaflugs.