Stjórn Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, hefur auglýst eftir nýjum skólameistara, en núverandi skólameistari er Jón B. Stefánsson. Er umsóknarfrestur til 9. febrúar, en í auglýsingu um starfið er meðal annars óskað eftir að umsækjendur greini frá helstu áhersluatriðum sínum í skipulagi og þróun tækni- og iðnnáms í næstu framtíð.
Í fyrra komust málefni Tækniskólans í umræðuna eftir að greint var frá því að stefnt væri að sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautarskólans við Ármúla. Tóku bæði kennarar og nemendur illa í þá hugmynd. Í maí var svo greint frá því að Steinn Jóhannsson, skólameistari FÁ, yrði næsti konrektor Menntaskólans við Hamrahlíð.
Í júlí var svo fallið frá hugmyndinni og var Ólafur H. Sigurjónsson ráðinn sem nýr skólameistari FÁ.
Verða umsóknir flokkaðar og mun stjórn velja umsækjendur í fyrsta viðtal. Áætlað er að 2-3 umsækjendur verði svo valdir í annað viðtal og verður þeim falið verkefni sem þeir eiga að kynna fyrir stjórninni sem svo tekur ákvörðun um ráðninguna.