Mikið framboð og gott aðgengi er að fíkniefnum á samfélagsmiðlum. Um 60 lokaðir hópar eru á Facebook þar sem fíkniefni eru boðin til sölu á Íslandi. Talið er að kaup og sala fíkniefna fari helst þar fram. Þetta kemur fram í BA-ritgerð Ingu Rutar Helgadóttur í félagsfræði sem nefnist: Fíkniefni á samfélagsmiðlum: Rannsókn á sölu og dreifingu fíkniefna á samfélagsmiðlum.
Ritgerðin er hluti af samnorrænu samfélagsverkefni sem Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræðideild Háskóla Íslands og leiðbeinandi hennar, tekur þátt í fyrir hönd Íslands ásamt Ingu. Rannsóknin kallast fíkniefnasala á samskiptamiðlum innan Norðurlandanna: blöndun staðbundinnar og tæknilegrar miðlunar við fíkniefnasölu. Rannsóknin felst í því að leita uppi síður eða hópa á netinu sem selja eða kaupa fíkniefni hér á Íslandi. Þetta er fyrsta rannsóknin sem skoðar þetta á Íslandi.
„Mér fannst sláandi hversu mikið framboð er af fíkniefnum, sérstaklega af amfetamíni, kókaíni og læknadópi og hversu auðvelt það er að komast í þessa hópa ef maður hefur áhuga á því,“ segir Inga Rut. Fyrir fram taldi hún að helst væri boðið upp á kannabis en sú var ekki raunin.
Inga Rut hafði aldrei áður verið í hópum á samfélagsmiðlum sem buðu fíkniefni til sölu fyrr en nýverið. „Ég þurfti aðeins að leggja höfuðið í bleyti til að finna leiðir hvernig ég gæti fengið aðgang í hópana. Það tók mig viku,“ segir Inga Rut. Hún fékk aðganga í 28 hópa sem seldu alls kyns fíkniefni á síðustu fjórum mánuðum síðasta árs. Þegar hún var fyrst komin inn í einn hóp gat hún auðveldlega komist inn í fleiri. Allir nema einn hópanna eru með stillt á leynilega stillingu á Facebook.
„Ég gerði mér engan veginn grein fyrir hversu stórir hópar þetta eru,“ segir Inga Rut og bendir á að til að mynda í nokkrum þeirra voru um 2.000 aðilar. Hins vegar er hluti þeirra í mörgum hópum, einkum seljendur. Inga Rut notaði gerviaðgang til að komast inn eins og langflestir aðilanna gera. Nöfn hópanna eru fjölbreytt og vísa ýmist í erlendar stórborgir, íslenskar og erlendar kvikmyndir, dægurmál, eða beint til fíkniefna eða fíkniefnanotkunar.
Virknin í hópunum var mikil og gjarnan eru settar inn færslur á tíu mínútna fresti. Seljendur voru þar í aðalhlutverki; að bjóða efnið sitt til sölu með auglýsingum og virtist markaðssetningin vega þar þungt. Algengt var að fíkniefnasalar gæfu beint upp símanúmer sín. Á þessu tímabili sem hún skoðaði hópana fjölgaði félögum í þeim öllum um um það bil 50 til 200 manns.
Inga Rut náði fjórum viðtölum við félaga hópanna, tvo kaupendur og tvo fíkniefnasala. Hún sendi á 83 aðganga að Facebook beiðni um viðtal og fékk svör frá ellefu þeirra en fjórir veittu viðtal. Fólkið var á aldrinum 21 til 35 ára og veitti viðtal ýmist í gegnum spjallið á Facebook eða gegnum Facebook-símann.
Annar fíkniefnasalinn var heildsali og var eldri, sá var mun varari um sig enn sá yngri. „Hann var reynslumeiri og notaði dulkóðuð samskipti,“ segir Inga Rut. Hann notaði smáforritið Wickr þegar hann seldi nýjum kúnnum en með því forriti er ekki hægt að rekja IP-tölvunúmer. Þegar hann hafði átt í reglulegum samskiptum við kaupendur fengu þeir símanúmer hans.
Inga Rut bendir á að líklega hafi verið meira undir hjá honum því hann var heildsali en hinn smásali. Yngri salinn gaf upp símanúmerið sitt og átti í ódulkóðuðum samskiptum við kaupendur sína. Hvorugur hafði miklar áhyggjur af því að lögreglan fylgdist með þeim en heildsalinn var meira meðvitaður um að slíkt gæti gerst, að sögn Ingu Rutar. Þetta viðhorf kom henni talsvert á óvart.
Þess má geta að í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi, sem var birt 25. október 2017, er lögð áhersla á að rannsóknir á sölu og dreifingu fíkniefna á samfélagsmiðlum byggi að mestu leyti á frumkvæði lögreglu. Í henni kemur einnig fram að lögreglan hafi samt sem áður ekki nægan mannafla til að sinna þessum málaflokki.
Í ágúst 2016 handtók lögreglan 20 manns og lokaði 80 sölusíðum á Facebook þar sem sala fíkniefna fór fram.
Kaupendurnir tveir sem hún ræddi við voru ekki hræddir við lögreglu þrátt fyrir að þeir hafi gert sér grein fyrir því að þeir stunduðu ólöglegt athæfi með því að kaupa og neyta fíkninefna. Kaupendurnir sjálfir voru ekki oft sýnilegir á samfélagsmiðlum heldur fylgdust vel með, náðu í símanúmer og samskiptaleiðir við fíkniefnasala.
„Þegar þú ert búinn að gera þetta nógu oft finnst þér þú ekki vera að taka neina áhættu. Ég skynjaði það frá öllum nema heildsalanum,“ segir Inga Rut.
Kaupendur fíkniefna eru fjölbreyttur hópur: ungir, gamlir, þekktir og óþekktir, að sögn viðmælenda Ingu Rutar. „Þetta er allt venjulegt fólk sem er þarna inni sem notar efnin t.d. um helgar, annað slagið, eða við verkjum eins og annar kaupandinn því ekkert annað gat hjálpað,“ segir Inga Rut og tekur fram að allir viðmælendurnir hafi verið opnir, hreinskilnir og gefið henni meiri upplýsingar en hún óskaði eftir.
Inga Rut bendir á að þar sem aðgengi inn í hópana er nokkuð auðvelt eigi unglingar og ungmenni greiðan aðgang þangað inn. Hún veltir því fyrir sér hvort auðvelt aðgengi efnanna og framsetning þeirra ýti undir að ungu fólki finnist þetta eðlilegt og freistist frekar til að prófa þau þar sem ríkjandi viðhorf innan hópanna er að það sé eðlilegt að nota þau. „Mér var til dæmis farið að finnast gaman að fylgjast með þessu,“ segir Inga Rut sem segir brýnt að rannsaka þetta enn frekar.
Eins og fyrr segir er verkefnið hluti af norrænu samstarfsverkefni sem Danir eiga frumkvæði að. Í lok febrúar fara Inga Rut og Helgi á ráðstefnu í Kaupmannahöfn til að kynna niðurstöðurnar og halda áfram með verkefnið. Helgi bendir á að Danir séu komnir lengst í að rannsaka fíkniefnasöluna á samskiptamiðlunum. „Hóparnir í Danmörku eru mun opnari og auðveldara er að komast inn í þá. Þar er einnig umræðan um að lögleiða fíkniefni komin lengst,“ segir Helgi.
Í þessu samhengi bendir hann á að sala á fíkniefnum verði að komast upp á yfirborðið. „Þetta er líflegur sölumarkaður án eftirlits og algjör frumskógur. Það er engin neytendavernd í þessu og fólk veit ekkert hvað er í þessum efnum sem það er að kaupa. Þú getur engum treyst,“ segir Helgi.
Það kom honum á óvart hversu mikið framboð er af hinum ýmsu fíkniefnum á samskiptamiðlum og hversu stór markaðurinn er. Hins vegar hafi hann haft ákveðnar hugmyndir og talið söluna á netinu fara meira fram í tengslum við kannabis.
„Ég hef reyndar gert mér það að leik í fjölmennu námskeiði sem ég held að spyrja yfir hópinn hversu margir gætu útvegað eiturlyf fyrir næsta partí eftir nokkra daga. Undantekningarlaust segist ríflega helmingurinn geta gert það,“ segir Helgi. Hann segir þetta gefa vísbendingu um hversu auðvelt aðgengið sé í raun og veru.