Jarðskjálfti af stærð 3,5 mældist um kílómetra norðaustur af Grindavík á tíunda tímanum í kvöld. Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir skjálftann hafa fundist vel í bænum og fjölmargar tilkynningar hafi borist Veðurstofunni.
Hún segir þó erfitt að segja til um hvort frekari skjálfta sé að vænta. „En það er auðvitað alltaf möguleiki á því þegar mikil spennulosun er í jarðskorpunni að það losni um einhvers staðar annars staðar,“ segir Hulda.
Tveir aðrir skjálftar hafa mælst í nágrenni bæjarins á síðustu klukkustund. Klukkan 21:17 varð skjálfti upp á 2,5 stig og klukkan 21:46 varð annar upp á 1,5 stig.