„Ætlum að hætta að vera dicks“

Salvör Nordal.
Salvör Nordal. mbl.is/Árni Sæberg

„Við þurfum öll að vera með og takast á við þetta,“ sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, á sameiginlegum morgunverðarfundi stjórnmálaflokkanna í morgun þar sem metoo-byltingin var til umræðu.

Salvör ræddi óskrifaðar reglur í samskiptum en hún sagði að undirstaðan í samskiptareglum væri virðing fyrir næsta manni. Minntist hún sérstaklega á frásagnir íþróttakvenna og sagði þær koma úr félagasamtökum þar sem ekki hafi verið leiðir fyrir ungar stúlkur til að segja sínar sögur.

„Hafi þær sagt frá þá hefur það verið þaggað niður,“ sagði Salvör. „Einnig er merki margra reynslusagna að konurnar eigi að vera ánægðar, til að mynda með að þær hafi misst kíló,“ bætti Salvör við. Ein reynslusaga íþróttakonu sneri að því að þjálfari sagði að nauðgun hefði gert henni gott, því hún hefði í framhaldinu misst nokkur kíló.

Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fylgjast með umræðum.
Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fylgjast með umræðum. mbl.is/Árni Sæberg

Hún sagði að stundum færu ofbeldismál alla leið í gegnum dómskerfið en þolandinn væri samt sem áður dæmdur og fengi ekki samfélagslegan stuðning. Tók Salvör dæmi af Emblu Kristínardóttur, sem sagði sína sögu í síðustu viku. Henni var nauðgað, maðurinn dæmdur en hún fékk samfélagið á móti sér.

„Við þurfum öll að vera með og takast á við þetta. Öll félagasamtök þurfa að fylgja í kjölfarið,“ sagði Salvör.

Ótti meðal karla

„Í öllum sögunum er sami rauði þráðurinn og það er auðvelt að fyllast ógeði yfir því sem dunið hefur yfir konur,“ sagði Gestur Pálmason markþjálfi. Hann fjallaði um sjónarhorn karla sem vilja axla ábyrgð.

Gestur og séra Vigfús Bjarni Albertsson stofnuðu Facebook-hópinn #égertil þar sem karlar eru hvattir til að hlusta á konur í tengslum við metoo.

Hann sagði að karlar þyrftu að hugsa hvar þeirra ábyrgð lægi til breytinga. „Við erum ekki að leita að stereótýpískum körlum, við ætlum bara að hætta að vera dicks,“ sagði Gestur.

Hann bætti við að ótti væri meðal karlmanna við að fara inn í þetta samtal. „Hvernig taka konur okkur þegar við tökum þátt?“

Þarf að uppfæra kynjakerfið í útgáfu 2018

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, sagðist í aðra röndina vera ánægð með umræðuna en einnig væri hún gáttuð á því hvað hefði gengið á í samfélaginu.

„Það er búið að fletta ofan af þessu daunilla sári. Við höfum öskrað, hvíslað og grátið. Bragabót hefur verið lofað. Ætlum við að standa við það, eru konur hættar að þegja og ætla karlar að standa við sitt?“ sagði Katrín.

Andrés Ingi Jónsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson og Guðmundur …
Andrés Ingi Jónsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson og Guðmundur Andri Thorsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að fást við aldagamla ómenningu, kynjakerfið. Það er svo rótgróið að við tökum ekki eftir því fyrr en við erum hrist til og vakin af svefni,“ sagði Katrín og bætti við að það væri mikil áskorun að uppfæra kynjakerfið úr útgáfu 874 í útgáfu 2018.

„Metoo-byltingunni er ekki lokið og það þarf að passa upp á að henni ljúki ekki.“

Þolandi vill oft þjónusta geranda

Valdís Ösp Ívarsdóttir fíknifræðingur sagði að þegar fólk yrði fyrir ofbeldi væri eins og mörk þess færu í sundur og rofnuðu. Í framhaldi af því eiga sér alvarlegir hlutir stað og þeir gerast hratt.

„Það er mikilvægt að fá jákvæða úrlausn áfalla frá því að mörkin fara í sundur áður en allt fer í rugl,“ sagði Valdís.

Hún sagði mikilvægt að benda á það að fólk sem verður fyrir því að mörkin rofni þjáist af minnisleysi. „Því getur fólk ekki lýst atburðum nákvæmlega strax. Það er því mikilvægt að fá tíma og ekki vera dregin í efa þó við getum ekki sagt allt strax. Það er alvarlegt í umræðunni að það er beðið um nákvæmar lýsingar á því sem gerðist en við verðum að sýna manneskju sem verður fyrir rofi skilning,“ sagði Valdís.

Hún sagði að þegar gerandi fær yfir mörk yrði til samband geranda/þolanda. Þá vilji þolandi eiginlega þjónusta manneskjuna sem hafi farið yfir mörkin. „Manni líður eins og hún hafi tekið yfir og maður vill samþykkja hana. Gerandi planar allt sem hann gerir en þolandi er stjórnlaus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert