Ákvörðunin kemur Heiðari mjög á óvart

Heiðar Guðjónsson.
Heiðar Guðjónsson. mbl.is/Kristinn

Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Eykon, segir að samstarf síns fyrirtækis, CNOOC og Petoro hafi verið til fyrirmyndar, þar til tvö síðarnefndu fyrirtækin drógu sig út úr leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni á Drekasvæðinu.

Eins og kom fram fyrr í dag er mat Orkustofnunar að Eykon ráði hvorki yfir tæknilegri, jarðfræðilegri né fjárhagslegri getu til að takast eitt á við þá starfsemi sem í næsta áfanga rannsóknaráætlunarinnar felst. Með eftirgjöf CNOOC og Petoro á leyfinu eru því brostnar forsendur fyrir áframhaldandi gildi þess að mati stofnunarinnar.

„Það kemur mjög á óvart að CNOOC og Petoro vilji bæði út úr samstarfinu núna í kjölfar formlegs fundar félaganna í nóvember,“ segir Heiðar og bætir við að fulltrúi Orkustofnunar hafi verið viðstaddur þann fund. Heiðar segir að allir leyfishafar hafi á þeim fundi samþykkt að biðja Orkustofnun um tveggja ára framlengingu á fyrsta leyfistímabili.

„Eykon hefur þegar byrjað að hafa samband við stórfyrirtæki í olíuleit og fyrirtækið er ósammála mati Orkustofnunar að það geti ekki haldið áfram með leyfið,“ segir Heiðar. „Mér finnst Orkustofnun vera að reyna að loka þessu máli frekar en að leyfa því að halda áfram sem mér fyndist heppilegra fyrir land og þjóð.

Þrátt fyrir fréttir dagsins ætlar Heiðar ekki að leggja árar í bát: „Ég er alltaf bjartsýnn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert