Fljúga áfram til Akureyrar

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð …
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, klipptu á borða eftir að fyrsta vélin frá Cardiff lenti á Akureyri í janúar. Til vinstri er Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyri, og hægra megin Hugo Kimber, stjórnarformaður Malvern Group, eiganda Super Break-ferðaskrifstofunnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ferðaskrifstofan Super Break, sem um miðjan mánuðinn hóf beint flug frá Bretlandi til Akureyrar, mun halda áfram að fljúga norður. Tveimur flugvélum af þremur á vegum ferðaskristofunnar var snúið til Keflavíkur í síðustu viku vegna þess að ekki var hægt að lenda á Akureyri.

Vélarnar gátu ekki lent á Akureyri og óskuðu eftir því að lenda í Keflavík en skyggni á fyrrnefnda flugvellinum var ekki gott. Koma þarf upp svokölluðum ILS-búnaði til að þotur geti lent á Akureyri þegar veður er ekki með besta móti.

„Super Break mun halda áfram að fljúga beint til Akureyrar eins og áætlanir gera ráð fyrir á næstu vikum,“ segir í svari fyrirtækisins við fyrirspurn mbl.is. Öryggi farþega muni áfram verða lykilatriði hjá fyrirtækinu og því verði lent á Akureyri þegar veður leyfir.

„Flugvöllurinn á Akureyri uppfyllir alla alþjóðlega staðla og fyrirtækið mun halda áfram að fljúga til Akureyrar samkvæmt áætlunum,“ kemur fram í svari þegar spurt er hvort fluginu verði haldið áfram ef ILS-búnaðurinn verði ekki tryggður.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son sam­gönguráðherra sagði um helgina að uppsetning búnaðarins muni kosta um 100 milljónir króna en líklega verður ekki hægt að fara í verkið fyrr en í vor eða sumar.

Super Break segir að það sé algengt á flugvöllum þar sem veður getur verið slæmt að einhverjar raskanir verði. „Við höfum því miður þurft að beina flugvélum annað vegna óhagstæðra veðurskilyrða á Akureyri en breytum ekki áætlunum í vikunni eða í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert