Hugsanlega verður gripið til vegalokana á meðan versta veðrið gengur yfir undir Eyjafjöllum og í Öræfum í dag. Þetta segir Skúli Þórðarson, yfirmaður vetrarþjónustu Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is. Von er á slyddu eða snjókomu hjá Reynisfjalli og skyggnið gæti því orðið slæmt. Hviður verða allt að 35 til 40 metrar á sekúndu frá klukkan þrjú til miðnættis.
Veður fer enn versnandi við suðurströndina og nær óveðrið þar hámarki í kvöld, þá er tekið að hvessa á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi en skilin færast smám saman yfir landið og verður veður slæmt á Norður- og Austurlandi á morgun.
„Það lægir umtalsvert á Suður- og Vesturlandi í nótt og verður ágætt veður þar á morgun,“ segir Óli Þór en þá bætir verulega í úrkomu á Austur- og Norðurlandi. „Seinnipartinn á morgun verður hvasst og töluverð ofankoma. Það er ástæðan fyrir því að við sendum gulu viðvörunina út sem stendur alveg fram á miðvikudag.“
Að sögn Óla Þórs er eins von á leiðindafærð á Hellisheiði þegar líður á daginn. „Í kringum kvöldmat kemur úrkoma á Hellisheiði, blaut snjókoma,“ segir Óli. „Veður verður leiðinlegt á Vestfjarðarkjálkanum og Breiðafirði seint í kvöld og nótt en í fyrramálið á norðanverðum Vestfjörðum og Steingrímsfjarðarheiði. Svo kemur úrkomubakki inn á Norðausturland, Öxnadalsheiði og austur úr.“